Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir háskólaráðuneytið tilbúið til að aðstoða Rafmennt við að komast í samtal við háskóla, ef þess er óskað.
Rafmennt tók nýverið við rekstri Kvikmyndaskóla Íslands eftir að skólinn varð gjaldþrota.
Hlín Jóhannesdóttir, sem nú hefur látið af störfum sem rektor Kvikmyndaskólans, sagði í samtali við mbl.is á þriðjudag að fyrir kaup Rafmenntar á skólanum hafi hann átt í viðræðum við háskólastofnanir um mögulegt samstarf.
Þar hafi Bifröst verið einna opnust fyrir samtali um hugsanlega sameiningu.
Sjálfur mátti Kvikmyndaskólinn ekki kalla sig háskóla, samkvæmt niðurstöðu matsnefndar erlendra sérfræðinga sem fjallaði um umsókn skólans um háskólaviðurkenningu árið 2022.
Í samtali við mbl.is segir Logi að þegar Kvikmyndaskólinn var starfandi hafi hann sinnt námi á svonefndu fjórða hæfnistigi – viðbótarnámi við framhaldsskóla.
„Við höfðum áhuga á því að búa til svona brú þannig að Kvikmyndaskólinn kæmist í samstarf við annan háskóla og nemendur gætu þá tekið nám í Kvikmyndaskólanum og lokið því síðan með diplómaprófi á einu ári í háskóla. Þetta er í rauninni hugmynd sem að fyrrverandi ráðherra [Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir] byrjaði að vinna með og við bara héldum áfram.“
Aðspurður segir hann ráðuneytið enn opið fyrir slíkum samtölum. Það sé þó á herðum Rafmenntar að fá viðurkenningu sem framhaldsskóli á fjórða hæfnissviði, líkt og Kvikmyndaskólinn hafði áður.
„Næstu skref eru fyrir Rafmennt að taka ákvörðun um hvað þau ætla að gera. Ætla þau að kenna eftir vorið kvikmyndagerð á sama hæfnissviði og Kvikmyndaskólinn var að gera? Þá er mitt ráðuneyti tilbúið til þess að aðstoða þau við að komast í samtal við annan viðurkenndan háskóla um þessa brú,“ segir ráðherrann.