Vinnumálastofnun hefur sagt upp samningi við sveitarfélög sem snýr að því að þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir uppsögninni fylgja mikil óvissa.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd er fólk sem kemur hingað til lands og óskar eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttafólk. Hefur það verið á herðum sveitarfélaga síðustu ár að þjónusta hluta þess fólks á móti Vinnumálastofnun á meðan beðið er niðurstöðu um hvort umsókn þeirra verði samþykkt.
Um er að ræða uppsögn á samningi sem nær til Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Reykjanesbæjar.
Í samtali við mbl.is segir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tilkynnt bænum fyrir um tveimur vikum. Bréf um uppsögn samningsins hafi svo formlega borist á miðvikudag.
Hann segir bæinn nú vera að fara yfir hvaða áhrif uppsögnin kann að hafa, en ljóst sé að henni muni fylgja breytingar og óvissa.
„Okkur finnst þetta auðvitað miður því að það er búið að vera að þjónusta ákveðinn hóp í gegnum þennan samning og það er ákveðin óvissa sem þessu fylgir. Það gefur alveg auga leið.“
Aðspurður segir hann bæinn munu óska eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um næstu skref. Ekki sé vitað með hvernig hætti þjónustan verði undir þeim sem taki við henni.
„Það er komin reynsla og þekking innan sveitarfélagsins á þessum málum og þessi nærþjónusta sem verið er að veita í gegnum þennan samning hér innan sveitarfélagsins er náttúrulega gífurlega mikilvæg fyrir þessa einstaklinga sem þurfa á henni að halda og þar af leiðandi er þessi óvissa.“
„Við viljum vera viss um að sú þjónusta sem sveitarfélögin hafa verið að veita - að það verði tryggt með einhverjum hætti að hún verði veitt áfram í gegnum þá aðila sem eru að taka þetta þá alveg yfir,“ segir Valdimar.
Hann segist ekki geta tjáð sig frekar um þær breytingar sem uppsögnin kann að hafa á sveitarfélögin en að línur muni vonandi skýrast á næstu dögum.