Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist hafa krossbrugðið þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins.
Þetta segir Svandís í þættinum Sjókastið sem er nýtt hlaðvarp á vegum Sjómannadagsráðs.
Er þar Svandís spurð, af Aríel Péturssyni þáttastjórnanda og formanni Sjómannadagsráðs, hvort hún hafi séð eftir þeirri ákvörðun að taka ekki sæti í starfsstjórn Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, þar til ný ríkisstjórn yrði mynduð.
Segir Svandís að ákvörðunin hafi verið tekin eftir umræðu í þingflokki VG þar sem ljóst hafi orðið að þingmenn vildu ekki starfa með Bjarna lengur. Það hafi verið í kjölfar „algjörs trúnaðarbrests“ sem hafi átt sér stað á milli formanna ríkisstjórnarflokkanna.
„Við hittumst, formenn flokkanna, í stjórnarráðinu til þess að fara yfir stöðuna og hvernig okkur litist á tiltekin átakamál sem voru þá á borðinu og það voru auðvitað málefni útlendinga, orkumál, ýmislegt sem við sáum að við þyrftum að vinna með,“ segir Svandís og heldur áfram:
„Við Sigurður Ingi töldum bæði að það væru til lausnir á því og þetta er á laugardegi. Á sunnudegi tilkynnir hann [Bjarni] okkur að hann ætli að slíta þessu. Mér krossbrá og ég hugsaði með mér bara „þetta er ekki heiðarlegt“, að sitja með okkur á fundi og láta okkur tala um það hvernig sé hægt að laga hlutina og gera þetta svo svona.
Þannig að það sem ég ber í raun og veru undir minn þingflokk er það að það séu tveir kostir í stöðunni; annaðhvort sé að taka sæti í starfsstjórn fram að kosningum eða stíga út úr samstarfi við Bjarna Benediktsson, sem varð niðurstaðan.“
Þá telur Svandís ákvörðunina hafa verið rétta og segist telja það hafa orðið mjög erfitt fyrir flokkinn að fara í kosningar verandi í ríkisstjórninni.
„En sagan segir okkur það að allir þessir þrír flokkar hlutu bara hörmulega útreið í þessum kosningum, þó að það hafi verið misafdrifaríkt og náttúrulega langþyngst hjá okkur, að vera beinlínis komin út af þingi.“
Þá segir Svandís flokkinn hafa verið farinn að mælast með lágt fylgi í könnunum um það leyti sem að Katrín Jakobsdóttir sagði sig frá formannsstöðu sinni og fór í forsetaframboð, en það var í byrjun apríl 2024. Eftir það hafi flokkurinn aldrei náð sér á strik.
„Svona eftir á að hyggja þá áttum við bara einhvern veginn ekki séns í þeirri stöðu að vera í þessari óvinsælu ríkisstjórn, vera með þessi tilteknu mál á bakinu, og vera alltaf undir þessum 5% mörkum sem var alltaf umræðuefnið í öllum þáttum og alls staðar. Það var eiginlega bara strax „já, VG nær ekki inn“ þannig að fólk byrjaði mjög snemma að hugsa það er ekki vel farið með atkvæðið.
Horfa má á þáttinn hér að neðan. Umræðan sem hér er tekin fyrir hefst 1:39:50.