Búast má við mildu og þokkalegu vorveðri áfram um helgina. Eilítil væta verður á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi en þurrt og bjart verður fyrir norðaustan.
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að á morgun verði suðaustan gola eða kaldi á Suður- og Vesturlandi, með vindi á bilinu 3–10 metrum á sekúndu. Hitastig verður á bilinu 7–11 stig.
Þá verði einnig lítils háttar væta öðru hverju.
Á Norðaustur- og Austurlandi má hins vegar búast við þurru og björtu veðri og gæti þar hitinn náð allt að 15 stigum.
„Á sunnudag er bara útlit fyrir hæglætisveður og einhverjar skúraleiðingar. Það er minni úrkoma á sunnudeginum, en áfram líklega bara þurrt og bjart þarna á Norðausturlandi,“ segir Haraldur.
„Þetta er bara þokkalegt vorveður áfram – svona milt og með vætu öðru hverju á Suður- og Vesturlandi, en þetta er ekkert verulegt magn. Bara gott fyrir gróðurinn,“ segir hann að lokum.