Af þeim sex hópnauðgunum sem hafa verið kærðar á árinu eru grunaðir gerendur erlendir ríkisborgarar í þremur tilvikum og menn með íslenskan ríkisborgararétt grunaðir í hinum þremur tilvikunum.
Ef litið er á öll kynferðisbrot, ekki bara hópnauðganir, þá er 71% grunaðra gerenda það sem af er ári Íslendingar.
Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is.
Eins og fjallað hefur verið um að undanförnu þá hafa óvenju margar hópnauðganir verið kærðar í upphafi árs. Allar sex hópnauðganirnar sem hafa verið kærðar á þessu ári hafa komið á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Í þremur málum eru grunaðir með íslensk ríkisfang og í þremur eru grunaðir með erlent ríkisfang,“ segir í svari ríkislögreglustjóra.
Ef litið er á öll kynferðisbrot til ársins 2020 má sjá að heilt yfir eru mun fleiri Íslendingar grunaðir en útlendingar. Árið 2020 voru 13% grunaðra gerenda í kynferðisbrotamálum menn með erlent ríkisfang en á síðustu árum hefur hlutfall útlendinga aukist.
Á síðasta ári voru útlendingar 29% grunaðra gerenda og það sem af er ári 2025 er skiptingin eins og á síðasta ári.
Ef litið er á hópnauðganir síðustu fimm ár þá hafa á bilinu 6-10 slík mál komið á borð lögreglu á ári hverju.
„Hafa ber í huga að málin sem koma á borð lögreglu þurfa ekki að endurspegla öll mál af þessu tagi. Margir þættir geta haft áhrif á líkur á að kynferðisbrot séu tilkynnt til lögreglu, t.d. mat brotaþola á alvarleika máls og tengsl viðkomandi við geranda eða gerendur,“ segir í svari ríkislögreglustjóra.