Í framhaldi af frétt Morgunblaðsins í gær um kröfu Búseta þess efnis að byggingarleyfi fyrir allt húsið í Álfabakka 2 verði afturkallað og byggingin í kjölfarið fjarlægð með öllu vill Guðmundur Óli Björgvinsson hæstaréttarlögmaður koma á framfæri sjónarmiðum Álfabakka ehf. sem hann segir hafa einlægan vilja til að eiga í góðum samskiptum við nágranna sína.
„Ein af þeim lausnum sem lagðar hafa verið fram er að umbjóðandi minn hefur boðist til að kaupa fasteignir af Búseta í von um að finna raunhæfa lausn á málinu. Og það þrátt fyrir að hafa í einu og öllu farið eftir tilskildum leyfum við bygginguna.“
Hann segir byggingaraðila hússins hafa fjárfest fyrir miklar fjárhæðir, lagt sig fram við að standa við skuldbindingar sínar gagnvart leigutaka og unnið verkið í góðri trú um að geta treyst útgefnum byggingarleyfum og staðfestingum borgaryfirvalda.
„Það er einfaldlega rangt að halda því fram að byggingaraðili hafi með einhverjum hætti reynt að setja aukinn kraft í framkvæmdina eftir að athugasemdir fóru að berast. Hann hafði á þeim tíma keypt allt efni og var einfaldlega að vinna úr því. Þær framkvæmdir sem farið var í eftir að athugasemdir komu fram – og ég tala nú ekki um eftir stöðvun framkvæmda við kjötvinnsluna – eru smávægilegar þegar litið er til framkvæmdarinnar í heild. Þegar athugasemdir bárust Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna í nóvember og desember 2024 var húsið nánast að fullu risið.“
Guðmundur Óli segir mikilvægt að halda til haga mikilvægum staðreyndum um framkvæmdina og að deiliskipulag hafi tekið athyglisverðum breytingum undanfarin ár. Umfang atvinnuhúsnæðis á lóðinni hafi verið minnkað og nýtingarhlutfall ekki verið fullnýtt. Á sama tíma hafi byggingarmagn íbúða við Árskóga 5-7 nánast verið tvöfaldað, auk þess sem byggingarreitur íbúðarhúsanna hafi verið færður nær lóðinni við Álfabakka 2a.
„Fasteignin sem slík hefur alls ekki meiri áhrif á íbúa Árskóga 5-7 en gera mátti ráð fyrir með því að kynna sér skilmála skipulagsins og ég minni á að Búseti er fagaðili sem reist hefur fjölda íbúðarhúsa og hefur áratuga reynslu af vinnu við byggingarframkvæmdir.“
Álfabakki ehf. er skuldbundinn af samningum um að skila fasteigninni á réttum tíma til leigutaka samkvæmt leigusamningi sem gerður var í lok árs 2022 og segir Guðmundur Óli að byggingaraðilinn hafi byggt fasteignina í góðri trú, með öll tilskilin leyfi.
„Umbjóðandi minn telur sig vera í fullum rétti og hefur réttmætar væntingar til að klára byggingu fasteignarinnar. Þess eru mörg dæmi í réttarframkvæmd að afturköllun byggingarleyfis hafi ekki verið talin tækt úrræði vegna réttmætra væntinga byggingarleyfishafa,“ segir Guðmundur Óli Björgvinsson.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.