Ein af elstu ljósmyndum 19. aldar frá Íslandi, sem tekin var af Reykjavíkurhöfn, glataðist í meðförum uppboðshússins Stockholms Auktionsverk eftir að hún hafði verið seld hæstbjóðanda.
Árni Freyr Magnússon sagnfræðingur segir að þegar hann sá myndina auglýsta á uppboði hafi hann kannað hvort afrit af myndinni væri til hjá Þjóðminjasafninu. Þegar í ljós kom að svo var ekki tók hann ákvörðun um að gera tilboð í myndina.
Hann segist hafa tekið þátt í uppboðinu með það fyrir augum að gefa Ljósmyndasafni Íslands myndina og bæta henni í safnkostinn. Heppnin hafi verið með honum þar sem hann var hæstbjóðandi. Þegar búið var að ganga frá flutningsmálum var honum tilkynnt að ljósmyndin væri týnd.
„Ég veit ekki hvað í ósköpunum hefur gerst hjá þeim og mér finnst þetta ekki vera fagleg vinnubrögð, sérstaklega hjá jafn reyndu og gömlu uppboðshúsi. Þetta er elsta starfandi uppboðshús í heimi, stofnað 1674. Maður hlýtur að geta gert þá kröfu að svona virtir aðilar passi upp á þá hluti sem eru í sölumeðferð.“
Hann segist ekki vilja gruna neinn um græsku, en sú hugmynd óneitanlega vakni hvort myndinni hafi hreinlega verið stolið eða hvort einhver starfsmaður hafi týnt henni.
„Það er ekki til mikið af myndum frá Íslandi frá þessum tíma og mjög alvarlegt hafi þeir týnt þessu.“
Árni telur að augljóst sé að uppboðshúsið hafi haft ljósmyndina undir höndum þegar hún var skráð og ljósmynduð fyrir uppboðið. Hann hafi síðan fengið tölvupóst frá uppboðshúsinu um að myndin væri týnd.
„Það var búið að taka ljósmyndir af myndinni, setja hana á vefinn og færa hana til bókar inn í uppboðshúsið. Þannig að einhvern tímann hafa þeir haft myndina. Mér finnst þetta mjög sérstakt mál og ég veit ekki hvað ég á að gera. Í raun og veru snýst þetta ekki bara um einhverja mynd heldur er hér um menningarverðmæti að ræða því það er ekki mikið til af ljósmyndum frá Íslandi frá 19 öld.“
Ljósmyndin er í hópi elstu mynda sem teknar hafa verið á Íslandi og er svokölluð „stereó-mynd“ sem er mynd sem gefur tilfinningu fyrir þrívídd með því að sýna tvær mismunandi myndir af sama hlutnum – eina fyrir hvort auga. Þessar tvær myndir eru teknar frá aðeins mismunandi sjónarhorni, líkt og augun sjá heiminn úr örlítið mismunandi staðsetningu. Þegar heilinn sameinar þessar tvær myndir myndast dýptarskyn, sem kallar fram þrívíða skynjun. Myndina tók R.J. Henry, breskur skipstjóri, á árunum 1858-1862.
Uppboðið á ljósmyndinni var úr safni Ove Renqvist (1938–2023) sem var sænskur kvikmyndagerðarmaður, ljósmyndari, bóksali og safnari. Hann var þekktur fyrir að safna hlutum sem tengdust ljósmyndatækni, þar á meðal stereó-myndum. Hann átti eitt stærsta safn Svíþjóðar af stereó-myndum og er talinn meðal fremstu sérfræðinga landsins í ljósmyndasögu frá 1840 til byrjunar 20. aldar.
Morgunblaðið sendi fyrirspurn til sænska uppboðshússins Stocholms Auktionverk þar sem óskað var skýringa á því hvers vegna myndin sem seld var íslenskum safnara hefði ekki verið afhent.
„Í þessum óvenjulegu og afar sorglegu aðstæðum höldum við uppbyggilegum samræðum við viðskiptavininn, sem fær endurgreitt,“ segir í svari Dan Panas, fjölmiðlastjóra Stockholms Auktionsverk.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.