Afstaða, félaga fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, segist hafa fengið upplýsingar um að tugir einstaklinga sem bíði brottvísunar frá Íslandi séu vistaðir vikum saman í fangageymslum lögreglu við óviðunandi aðstæður.
Þar séu þeir oft einangraðir og án reglubundinnar útivistar. Í sumum tilvikum séu þeir handjárnaðir við svokallað „belti“ þegar þeir fá takmarkaða útvist.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Afstöðu, sem krefst þess að íslensk stjórnvöld standi við alþjóðlegar skuldbindingar um varnir gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð, og að dómskerfið standi um þær vörð.
Í tilkynningunni er bent á að viðkomandi einstaklingar hafi ekki framið refsiverð brot en séu engu að síður vistaðir við aðstæður sem brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um mannréttindi.
„Það vekur sérstaka athygli Afstöðu að íslenskir dómarar hafa ítrekað úrskurðað um slíka vistun án þess að metið sé hvort vægari úrræði geti komið að notum. Með því bera dómarar, lögum samkvæmt, ábyrgð á þeirri vanvirðandi meðferð sem þeir sæta.“