Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að Frans páfa verði minnst sem manns sem bjó yfir mikilli auðmýkt, umburðarlyndi og kærleika.
Þorgerður Katrín, sem sjálf er kaþólikki, var viðstödd útför Frans páfa í dag ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og Einari Gunnarssyni, sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði.
Í færslu á samfélagsmiðlum segir Þorgerður Katrín að Frans páfi hafi verið maður fólksins og friðarins í heimi sem þurfi sárlega á slíkri forystu og sýn að halda.
„Það var mikill heiður að vera viðstödd, ásamt forseta Íslands og fá að fylgja þessum merka manni, góða og hlýja páfa. Sem kaþólikki er ég þakklát fyrir að hafa upplifað þessa mögnuðu stund við Péturskirkjuna í Róm,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Segist hún viðurkenna að sumt af hennar fólki, sem gengið sé, hafi verið með henni í dag og það sé gott að hafa fundið það.
„Nú hefur Frans páfi fengið hvíld eftir ævi sem var tileinkuð þjónustu við mannkyn. Minning hans mun lifa áfram.“