„Við erum búnir að ná tökum á þessu og erum bara að drepa í glæðum.“
Þetta segir Bjarni Þorsteinsson, varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar, en slökkviliðið var kallað út vegna sinuelds, sem virtist ætla að dreifa úr sér, í Selgili við Húsafellsfjall austan við Húsafell í áttina að Kaldadal, á öðrum tímanum í dag.
„Þetta leit ekkert vel út. Þetta er í brattlendi og eldur sækir mjög hratt upp brattlendi,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Segir hann að erfitt sé að gera sér grein fyrir því á hversu stóru svæði eldurinn logaði en segir hann hafa verið á frekar afmörkuðu svæði.
Veðurskilyrði voru slökkvistarfi hagfelld en rigningin mætti eftir pöntun, eins og Bjarni orðar það, og sló á.
Yfir 30 slökkviliðsmenn sinntu útkallinu á dælubílum og böggy-bílum með vatnsbúnaði og háþrýstidælum. Þá notuðust þeir við klöppur og rigningin hjálpaði til.
Að sögn Bjarna er vinnu að ljúka á vettvangi.
„Þeir eru bara í svona litlum hreiðrum að fulldrepa þetta. Ætli við verðum ekki komnir svona um þrjúleytið til baka.“