Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose hefst hér við land á mánudag en hún er haldin á vegum Atlantshafsbandalagsins, NATO.
Æfingin er árleg og fer fram suður af landinu og á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs. Landhelgisgæslan er þátttakandi.
Varðskip Íslendinga; Freyja og Þór, hafa bæði legið við Faxagarð í Reykjavík undanfarna daga. Það gerist ekki oft að varðskipin liggi samtímis í höfn, enda hafa þau skipst á að gæta landhelgi Íslands. Þá er Siglufjörður heimahöfn Freyju og skipið kemur því sjaldan til Reykjavíkur.
Árni Sæberg hefur í áratugi myndað starfsemi Landhelgisgæslunnar en hann var á árum áður háseti á varðskipunum. Árni beið því ekki boðanna þegar tækifæri gafst til að mynda varðskipin saman.
Kafbátaleitaræfingin stendur til 9. maí og er Ísland gestgjafi að þessu sinni. Landhelgisgæsla Íslands hefur annast skipulagningu æfingarinnar í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og flotastjórn Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi.
Herskip sem taka þátt í æfingunni eru HNLMS Tromp frá Hollandi, FGS Bayern og FGS Rhön frá Þýskalandi, ORP General Kazimierz Pulaski frá Póllandi auk þýsks kafbáts. Þrjú skipanna eru hluti af fastaflota NATO (SNMG1). Þau hafa komið til Reykjavíkur undanfarna daga.
Þá mun varðskipið Freyja taka þátt í æfingunni auk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Það er ástæða þess að Freyja kom til hafnar í Reykjavík að þessu sinni.
Varðskipið Þór tók á dögunum þátt í æfingunni Arctic Guardian 2025 sem fór að þessu sinni fram í nágrenni við Tromsø í Noregi.
Auk Landhelgisgæslunnar tóku systurstofnanir frá Kanada, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum þátt í æfingunni sem fór fram á vegum Arctic Coast Guard Forum sem leggur áherslu á samstarf þessara sjö norðurskautsríkja á sviði leitar og björgunar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.