Fyrsta skóflustungan að 133 íbúða byggingu á Borgarhöfða var tekin í gær. Áætlað er að hverfið, sem mun rísa á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, muni hýsa allt að 20.000 íbúa.
Uppbyggingin er á vegum fasteignaþróunarfélagsins Klasa og er þetta fyrsta framkvæmd félagsins er varðar Borgarhöfða, en til viðbótar sér Klasi fyrir sér að reisa um 700 íbúðir til viðbótar auk verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á næstu árum.
Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa segir uppbygginguna hafa verið lengi í þróun, en byrjað var að fjárfesta á svæðinu árið 2005.
Aðspurður segir Ingvi að reiknað sé með að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar eftir um 18 mánuði. Allar verði svo tilbúnar eftir rúm tvö ár.
Klasi hefur unnið að þróunarvinnu á svæðinu undanfarin ár og eru nú þegar um 400 íbúðir í framkvæmdum á vegum verktaka á þróunarsvæði félagsins.
Til að mynda hefur verið unnið að uppbyggingu á Eirhöfða og Breiðhöfða sem Ingvi segir komna vel á veg og nefnir að íbúðir á Eirhöfða séu þegar komnar í sölu og verði afhentar í sumar.
Spurður um næsta áfanga félagsins segir Ingvi að verið sé að undirbúa hjúkrunarheimili á svæðinu sem unnið sé að í samstarfi með Grundarheimilunum. Um sé að ræða 100 herbergja hjúkrunarheimili og 160 íbúðir sem verða fyrir fólk eldra en 60 ára. Hann tekur þó fram að enn hafi ekki verið samið um þá uppbyggingu.
Það sé fyrst og fremst í undirbúningi að vinna að miðsvæði borgarhverfisins, sem auk íbúða mun innihalda verslanir, þjónustu og atvinnuhúsnæði. Þá er einnig reiknað með tveimur borgarlínustöðvum.
Svæðið hefur undanfarna áratugi verið iðnaðarsvæði og segir Ingvi það náttúrulega þróun að farið verði í nútímalegar breytingar á svæðinu. Aðspurður segir hann félagið ekki hafa mætt gagnrýni frá eigendum iðnaðarhúsa á svæðinu. Allt sem verði reist á lóðum félagsins sé nú þegar búið að semja um og hafi verið keypt af aðilum sem hafi svo leitað annað. Þá hafi félagið jafnvel í einhverjum tilvikum hjálpað þeim að finna nýjar staðsetningar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.