Menningarhúsið Miðgarður í Skagafirði var fullt út úr dyrum að kvöldi sumardagsins fyrsta þegar minningartónleikar um Stefán R. Gíslason, kórstjóra og organista, fóru fram. Var með tónleikunum tekið forskot á Sæluviku Skagfirðinga sem hefst formlega núna um helgina.
Stefán féll frá haustið 2023 en hann stjórnaði Karlakórnum Heimi í áratugi, auk þess að stjórna Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls, Álftagerðisbræðrum og fleiri sönghópum. Stefán hefði orðið 70 ára síðasta haust og þá var stofnaður minningarsjóður um hann. Allur ágóði af tónleikunum rennur í sjóðinn, sem styrkir efnilegt fólk til náms í orgelleik og kórstjórn.
Gísli Gunnarsson, vígslubiskup að Hólum og fv. prestur í Glaumbæ, átti frumkvæði að stofnun minningasjóðsins og undirbjó tónleikana í Miðgarði ásamt fleirum. Hann átti lengi gott og farsælt við Stefán.
„Þetta gekk allt vel, var frábært kvöld og góður andi,“ sagði Gísli við mbl.is.
„Uppselt var á tónleikana og safnaðist vel í minningarsjóðinn auk annarra gjafa sem sjóðnum hafa borist. Ég er afar þakklátur öllum þeim sem komu fram og gáfu sína vinnu, eins er ég þakklátur öllum þeim sem komu á tónleikana og voru með okkur,“ segir Gísli en gestir á tónleikunum í Miðgarði voru um 400 talsins og til viðbótar komu um 100 manns fram á sviðinu.
Tónlist fluttu Karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður og niðjar þeirra, Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls og harmonikutrió sem stjórnandi Heimis í dag fór fyrir, Jón Þorsteinn Reynisson. Með honum spiluðu Ísak Agnarsson og Guðmundur Smári Guðmundsson. Þrír Álftagerðisbræður eru enn að syngja, þeir Óskar, Pétur og Gísli Péturssynir. Með þeim sungu sonur Gísla, Agnar, og tveir synir hans, þeir Jóel og Ísak. Sjöundi söngmaðurinn í Álftagerðisbandinu var svo Atli Gunnar Arnórsson, tengdasonur Gísla.
„Skagfirsk stemming sveif svo sannarlega yfir vötnum. Þetta gat ekki tekist betur,“ segir Gísli um þessa kvöldstund í Miðgarði.