Íris Ava Jónasdóttir, nú fjögurra mánaða, fæddist með SMA, týpu 2, genetískan taugasjúkdóm sem veldur alvarlegri fötlun. Hún gekkst nýlega undir genameðferð sem mætti líkja við kraftaverk, en meðferðin gefur góðar vonir um að Íris Ava fái að lifa lífinu eins og önnur börn.
Nína Guðrún Geirsdóttir og Jónas Aðalsteinsson segja sögu sína í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, en þegar Íris Ava var fimm daga gömul fengu þau símtal sem sneri lífinu á hvolf.
„Við vorum í algjöru áfalli,“ segir Nína Guðrún, en foreldrarnir fengu síðar að vita að til væri lyf sem breytir geninu sem veldur SMA. Íris Ava fékk svo þessa gullnu sprautu sem mun breyta lífi hennar.
„Þau tóku þarna utan um okkur og sögðust aldrei geta lofað neinu en að það væru góðar horfur. Þau sögðu okkur að örvænta ekki, heldur vera vongóð, sem við erum.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.