Sýningin VOR er samsýning á verkum sextán íslenskra listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að hafa slegið sér niður í Belgíu til lengri eða skemmri tíma og vinna þar að listsköpun. Sýningin er haldin í tengslum við Art Brussels, eina mikilvægustu listastefnuna í Belgíu, og er hluti af VIP-dagskrá hennar, en það tryggir aðsókn safnara, sýningarstjóra og menningarritstjóra sem heimsækja sýninguna í skipulögðum ferðum.
Sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, henti á lofti hugmyndina að sýningunni sem nú er orðin að veruleika. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Árni Jónsson, Baldvin Einarsson, Davíð Samúelsson, Erla Franklínsdóttir, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Hallveig Ágústsdóttir, Helena Jónsdóttir (og Þorvaldur Þorsteinsson), Hrefna Hörn, Ívar Glói, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson, Sigurrós Björnsdóttir, Silja Hubert, Valgerður Sigurðardóttir og Fritz Hendrik Berndsen.
„Mér var boðið á samsýningu nokkurra listamanna af ýmsum þjóðernum þar sem Guðný Rósa listakona var meðal sýnenda. Þar var ég kynntur fyrir gestgjöfunum, hjónunum François Huet og Odile Repolt, sem bæði eru listaverkasafnarar og eiga og reka fallegt hús sem þau nýta gjarnan sem „residensíu“ fyrir listamenn. Annað slagið slá þau til og halda þar sýningar en húsið er bjart og fallegt og afar vel fallið til sýningarhalds. Í spjalli við þau kom fram að töluvert margir íslenskir listamenn búa og starfa í Belgíu og einhvern veginn kviknaði síðan þessi hugmynd að halda sýningu á verkum íslenskra listamanna,“ segir Kristján Andri og hann segir verkefnið hafa síðan undið upp á sig.
„Verkefnið er í raun tvíþætt og er allt undir einstöku örlæti og rausnarskap Huet-Repolt-hjónanna komið. Fyrri hlutinn fólst í að bjóða íslenskum listamanni sem býr og starfar á Íslandi að koma til tveggja mánaða dvalar í húsnæði þeirra í hjarta Watermael-Boisfort hverfisins í Brussel. Þessi dvöl var auglýst heima með aðstoð Myndlistarmiðstöðvarinnar og sérstök valnefnd fagfólks hér ytra valdi síðan úr nokkrum fjölda umsókna Fritz Hendrik Berndsen sem hefur dvalið hér síðan í febrúar og lauk dvölinni á að taka þátt í seinni hluta verkefnisins sem er sem sagt fólginn í samsýningu á verkum íslenskra listamanna sem búa og starfa í Belgíu.“
Kristján Andri hófst handa við að skrifa listamönnunum og kynnti þeim hugmyndina. Á endanum reyndust þeir vera átján sem eru virkir og starfandi í Belgíu og var þeim öllum boðin þátttaka í sýningunni.
„Langflest þeirra þekktust boðið og það hefur verið einstaklega gefandi að heimsækja vinnustofur þeirra og kynnast þeim og verkum þeirra betur í þessu ferli öllu. Lykilmaður í að skipuleggja þetta ferli allt og setja sýninguna saman er Gauthier Hubert, sem ég fékk fljótlega til liðs við mig. Hann er þekktur listamaður í Belgíu, prófessor við listaakademíuna í Brussel og öllum hnútum kunnugur í belgísku listalífi. Á síðastliðnu hausti heimsóttum við alla listamennina á vinnustofum þeirra, fórum yfir verkin þeirra og það sem þeir hafa verið að vinna að. Þau búa ekki bara í Brussel, heldur einnig í Antwerpen og Gent og jafnvel Hasrode, ekki langt frá Leuven,“ segir Kristján, en sýningin var síðar sett upp af Gauthier.
„Hann hefur einstakt næmi og auga fyrir rýminu sem við höfum úr að spila og það er óhætt að segja að verkin njóta sín öll afar vel, hvert og eitt í því rými sem þeim hefur verið ætlað.“
Sýningin er samstarfsverkefni sendiráðsins í Brussel og Íslandsstofu og segir Kristján Andri styrk þaðan hafa gert kleift að kynna sýninguna fyrir hvers kyns menningarmiðlum í Brussel, bæði pressunni en líka öðrum fjölmiðlum, svo sem í útvarpi og sjónvarpi jafnvel.
„Vonandi hjálpar það til að koma fólkinu okkar á framfæri hér og ná betri fótfestu á belgískum listmarkaði. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeirri athygli sem sýningin hefur vakið og umfjöllun sem hún hefur fengið,“ segir Kristján Andri.
Sýningin nefnist VOR upp á íslensku, hvernig er nafnið til komið?
„Ég hafði tekið eftir þegar ég var í París að franskar þýðingar á verkum Ragnars Jónassonar bera jafnan íslensk heiti, gjarnan stutt orð eða hugtök sem eru ekki of flókin í framburði. Undir áhrifum af þessu snjallræði bárust böndin fljótlega að orðinu VOR, ekki bara vegna þess að það er stutt og laggott og sýningin er haldin þegar vorið er að ganga í garð á meginlandinu, heldur líka vegna þess að við tengjum oft vorið við upphafið að einhverju nýju, þegar gróðurinn er að taka við sér, nýtt líf að kvikna og allt virðist mögulegt.“
Sýningin stendur yfir til 4. maí og er opin laugardaga og sunnudaga milli kl. 14 og 18 og meðan Art Brussels stendur yfir frá 24.-27. apríl er opið milli kl. 10 og 18. Hún er til húsa að Rue du Relais 42 í 1170 Watermael-Boisfort í Brussel.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.