„Þetta er mjög jákvæð niðurstaða hjá okkur og stórt skref í rétta átt,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri í Árborg, en rekstrarafkoma sveitarfélagsins árið 2024 er langt umfram áætlanir og merki um mikinn viðsnúning í rekstri Árborgar.
„Við erum að ná lögbundnum viðmiðum en gerum okkur öll grein fyrir því að það er enn verkefni okkar að gera daglegan rekstur, eða svokallaðan A-hluta sveitarfélagsins, sjálfbæran þannig að hann standi undir öllu sem við þurfum að reka.“
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 3.243 milljónir króna, þrátt fyrir að ráð hafi verið gert fyrir 115 milljóna króna halla.
Í A-hluta var reksturinn jákvæður um 1.892 milljónir, þar sem ráð hafði verið gert fyrir um 1.000 milljóna króna halla.
Bragi segir í samtali við mbl.is að sveitarfélagið hafi m.a. selt eignir og byggingarrétt á landi, sem hafi skilað sér mjög vel sem auknar tekjur.
Þá hafi verið farið í tekjuaukandi aðgerðir, sem fólust m.a. í því endurskoðun gjaldskráa og því að setja álag á útsvar árið 2024.
„Það var einskiptis aðgerð sem var ætlað að tryggja lausafjárstöðu sveitarfélagsins en hún var mjög slæm á þessum tíma. Með henni átti að skapa þennan grunn að hreyfa svona „olíuskip“, sem sveitarfélagið er, í rétta átt þannig að það færi að vinna með okkur.“
Hvað hagræðingaraðgerðir varðar segir Bragi þær hafa birst í öllum málaflokkum.
„Það hefur því miður leitt til bæði uppsagna og fækkunar stöðugilda, sem og rekstraraðgerða til að draga almennt úr rekstrarkostnaði.“
Bragi segir aðgerðirnar allar hafa skilað tilætluðum árangri og það megi segja að það hafi tekist að snúa skipinu í rétta átt.
Þá segir hann að samtímis hafi ytri aðstæður verið hagfelldar eins og að verðbólgan hafi haldið áfram að hjaðna.
„Með því að styrkja lausafjárstöðuna gátum við losað okkur við einn yfirdráttinn sem við vorum með. Það munar strax í vaxtakostnaði enda er mismunur fjármagnsgjalda milli ára um 400 milljónir.“
Spurður hvort hagræðingaraðgerðir hafi komið mikið niður á þjónustu við íbúa segir Bragi að sveitarfélagið hafi kappkostað að þær gerðu það eins lítið og mögulegt var.
„Auðvitað hefur þetta haft áhrif á einstaka stöðum og annað væri ólíklegt þegar um svona miklar aðgerðir er að ræða.
Við höfum reynt að verja viðkvæmustu hópana, hugsa um velferðarþjónustuna og börnin en þurfum núna áfram að vinna okkur í það að endurmeta hvernig hefur gengið á hverjum stað,“ segir hann.
Árborg var ekki með vinnuskóla fyrir svokallaðan 17+ hóp og áttunda bekk síðustu tvö sumur en Bragi segir að verið að setja hann að hluta til aftur inn í sumar.
Þá var ákveðinni þjónustu lokað yfir sumartímann í fyrra sem snéri að dagdvöl aldraðra. Bragi segir að bæjaryfirvöld hafi sé að sú ráðstöfun hafi ekki virkað alveg eins vel og þau vildu og því verði þjónustan sett aftur inn núna í sumar.
„Þannig að við erum að vinna okkur líka til baka þar sem við getum. Það eru alls konar litlar aðgerðir sem skipta máli í heildinni sem við erum að endurmeta líka.“
Þannig segir bæjarstjórinn að öll þessi púsl hafi spilað saman með þessum góða árangri í rekstrinum.
„Maður vill bara þakka öllum kjörnum fulltrúum, starfsmönnum, ráðgjöfum og íbúum fyrir þeirra hlutdeild í þessu því við höfum öll gert þetta saman,“ segir Bragi.
Hann segir það ábyrgð kjörinna fulltrúa og starfsmanna að sýna ábyrgð í rekstri og að það muni þau gera áfram þó reksturinn sé orðinn sterkari.
„Við þurfum að gæta þess að við lendum aldrei aftur á þessum stað sem við fundum okkur á árið 2022.“
Bragi segir sveitarfélagið aldrei vilja fara dýpra í vasa íbúa en til þarf þegar kemur að gjöldum og álögum.
„Við vildum skapa aðstæður til að geta lækkað álögur og við viljum bakka til baka um leið og við getum. Allir íbúar eiga að njóta ávinningsins af góðum rekstri, bæði í þjónustu og lægri gjöldum.
Þær aðstæður eru til staðar að við getum farið að huga að því að lækka álögur annars staðar og þar held ég að allir séu sammála um að horfa til fasteignagjaldanna hjá okkur, sem eru í hæsta móti og við viljum sjá þau lækka, en það er verkefni fjárhagsáætlunarvinnu næsta árs.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.