Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, var með 16.852.320 krónur í laun á síðasta ári fyrir setu í bæjarstjórn, ráðum og nefndum. Er hún því launahæsti bæjarfulltrúi Kópavogs.
Þetta kemur fram í fundargerð frá síðasta fundi bæjarráðs Kópavogs.
Orri Vignir Hlöðversson formaður bæjarráðs lagði fram fyrirspurnina í kjölfar umræðna um kaup og kjör bæjarfulltrúa í tengslum við hagræðingaraðgerðir meirihlutans.
„Í þeirri umræðu spannst mikil umræða um kaup og kjör bæjarstjóra, æðstu stjórnenda bæjarins og bæjarfulltrúa,“ segir Orri í samtali við Morgunblaðið en liður í hagræðingaraðgerð bæjarins var að lækka laun bæjarfulltrúa um 10%.
Næstlaunahæsti bæjarfulltrúinn er Hjördís Ýr Johnson með rúmlega 16,1 milljón króna í laun á síðasta ári og Orri var með rétt rúmlega 16 milljónir í árslaun sem bæjarfulltrúi á síðasta ári.
Meðallaunin hjá bæjarfulltrúunum voru hátt í 11 milljónir króna á ári.
Launalægsti bæjarfulltrúinn var Ásdís Kristjánsdóttir með tvær og hálfa milljón á síðasta ári en hún er aftur á móti með ráðningarsamning við Kópavogsbæ sem bæjarstjóri.
Launin ráðast af því hversu mörgum nefndum og ráðum bæjarfulltrúar eru í. Spurður hvort það komi honum á óvart að bæjarfulltrúi í minnihluta sé með hæstu launin segir hann:
„Það tengist eingöngu því að hún situr í öllum helstu ráðunum okkar; skipulagsráði, velferðarráði og menntaráði, auk þess að vera bæjarfulltrúi og áheyrnarfulltrúi í bæjarráði. Þá safnast það í sarpinn og hún verður hæst, trónir þarna á toppnum, en á sínar eðlilegu skýringar,“ segir Orri.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.