Fulltrúar flugfélagsins LOT, stærsta flugfélags Póllands, eru vongóðir um að mikil eftirspurn verði eftir flugi félagsins milli Íslands og Póllands.
Sendiráð Póllands í Reykjavík efndi á dögunum til blaðamannafundar í tilefni af því að LOT hóf flug til Íslands 12. þessa mánaðar.
Krzysztof Moczulski talsmaður LOT flutti við það tilefni stutt erindi. Fram kom í máli hans að flugið til Póllands myndi opna á marga möguleika í tengiflugi fyrir Íslendinga. Farnar yrðu fjórar ferðir á viku yfir sumarið og þrjár á viku í vetur.
„Um 60% farþega okkar á flugvellinum í Varsjá eru tengifarþegar. Við horfum fram á mikinn vöxt í eftirspurn frá Balkanskaganum og frá Austur-Evrópu. Við munum ekki aðeins ferja hingað Pólverja, sem eru stærsti minnihlutahópurinn hér á Íslandi, heldur einnig fólk frá öllu þessu svæði,“ sagði Moczulski meðal annars við það tilefni.
Ewa Lampart var einnig viðstödd í sendiráðinu en hún sinnir markaðsmálum hjá LOT.
Spurð hversu hátt hlutfall Pólverja, sem teljast nú vera um 38 milljónir, hefði efni á að ferðast til Íslands, eins dýrasta lands heims, sagði Lampart að það vægi á móti að á Íslandi væru ferðamannastaðir sem fyndust hvergi annars staðar.
„Ef fólk vill sjá eitthvað alveg einstakt þarf það að koma til Íslands,“ sagði Lampart.
Hún vakti athygli á því að Íslandsflug LOT myndi höfða til margra hópa. Í fyrsta lagi hins fjölmenna samfélags Pólverja á Íslandi. Í öðru lagi fólks með góð fjárráð. Í þriðja lagi bakpokaferðalanga og í fjórða lagi ferðamanna sem kæmu í viðskiptaerindum til Íslands og til að sækja ráðstefnur.
Lampart benti svo á að LOT hefði hafið flug til Kasakstans og Aserbaísjans og viðtökurnar bentu til að löndin þættu spennandi áfangastaðir.
Spurð um vinsæla áfangastaði Pólverja segir hún marga sækja í sólina í Króatíu og þá ferðist margir til Egyptalands, Tyrklands og Kýpur.
„Við höfum líka tekið eftir því að vegna breytinga á loftslaginu sækja ferðamenn með góð fjárráð mikið til Skandinavíu. Flýja þannig hitann,“ sagði Lampart og rifjaði upp frásagnir af hitabylgju í Dubrovnik í Króatíu síðasta sumar.
Spurð um stöðu fluggeirans í Póllandi sagði hún umsvifin í fluginu aukast ár frá ári en LOT væri með ráðandi stöðu á markaðnum.
„Afkoma félagsins í fyrra var góð. Við erum að þróa starfsemina með nýjum flugleiðum og nýjum vélum. Það skapar okkur góð skilyrði til vaxtar. Þá mun uppbygging nýs flugvallar í nágrenni Varsjár skapa enn fleiri tækifæri fyrir okkur,“ sagði Lampart.
Spurð hvernig íslensk ferðaþjónusta geti stuðlað að auknum ferðum Pólverja til Íslands sagði Lampart að það geti haft mikið að segja að kynna einstaka áfangastaði á Íslandi, eins og hverina og eldfjöllin, og vinna gegn þeirri staðalímynd af Íslandi að landið sé mjög dýrt heim að sækja. Æskilegt væri ef Íslendingar fengju þekkt fólk og áhrifavalda til liðs við sig til að færa sönnur á þetta. Svigrúm sé til að auka eftirspurn eftir Íslandsferðum í Póllandi.
„Já, vegna þess að Ísland er virkilega draumaáfangastaður fyrir marga Pólverja af því að landið er svo framandi og heillandi í okkar augum,“ sagði Lampart.
Hún færði svo blaðamanni að gjöf kynningarefni tengt fluginu til Íslands en þar var meðal annars að finna tímarit sem LOT gaf út í tilefni af Íslandsfluginu. Það heitir Kaleidoscope og er yfirskriftin Islandia.
Tímaritinu er fylgt úr hlaði með leiðara eftir Michal Fijol forstjóra LOT, sem kynnti áfangastaðinn með þessum orðum:
„Ísland, landið sem er fjallað um í þessu tímariti, er land elds og íss, villtrar og magnaðrar náttúru sem hefur í gegnum árin heillað ferðamenn alls staðar að úr heiminum. Ísland er líka staður sem stendur hjarta margra Pólverja nærri, enda hefur fjölmennt samfélag Pólverja búið og starfað þar síðustu áratugi og með því lagt mikið af mörkum til eyjunnar efnahagslega og menningarlega,“ skrifaði Fijol.
Ritstjóri tímaritsins, Agnieszka Franus, skrifaði um ferð sína í hveralækinn í Reykjadal og hefur greinilega notið dvalarinnar. „Ísland er svo framandi að það er eins og að vera á annarri reikistjörnu,“ skrifaði Franus.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.