„Farvegurinn sem þetta mál er að fara í er ekki góður fyrir íslenska nemendur mína, sem ég hef vissulega brugðist, því það er verið að draga námið þeirra niður og það er verið að draga niður umgjörð þess.“
Þetta segir Böðvar Bjarki Pétursson, stofnandi Kvikmyndaskóla Íslands og starfandi stjórnarformaður skólans frá upphafi, í samtali við mbl.is. Kvikmyndaskóli Íslands er fjölskyldufyrirtæki en sjálfur á Böðvar Bjarki 36% hlut í Kvikmyndaskóla Íslands og 50% hlut í The Icelandic Film School.
Vísar hann til þess að þekkingarfyrirtækið Rafmennt hafi tekið við þrotabúi Kvikmyndaskóla Íslands og sagt upp öllum fagstjórum skólans ásamt rektor.
Böðvar Bjarki segir ekkert til í skóla sem heitir: „Ég ætla að kenna illa í dag af því ég ætla að kenna vel síðar. Þú heldur bara fullum gæðum alltaf eða bara hættir,“ segir hann og segist óskaplega hræddur um að fyrstu skrefin sem Rafmennt hafi sýnt með uppsögnunum sé skýr yfirlýsing um að draga námið og umgjörð þess niður.
Böðvar Bjarki heldur áfram og skýrir sitt mál með því að greina stöðu skólanna tveggja meðal þeirra 4-6 þúsund kvikmyndaskóla sem eru starfandi í heiminum.
„Þessi Sýrlands-kvikmyndaskóli sem Rafmennt hefur verið að reka er svona í topp 4 þúsund. Svo erum við með Kvikmyndaskóla Íslands sem er í topp 200.
Það kemur þarna topp 4 þúsund-skóli og tekur yfir topp 200-skóla og á hverju byrjar hann? Hann byrjar á að skera topp 200-skóla niður í starfsemi síns skóla í staðinn fyrir að reyna að læra, uppfæra sig og hækka standardinn á sínu námi.
Þeir bara kunna þetta ekkert. Það er það sem er að. Þetta er auðvitað bara byggt á öðru fagi.“
Talið berst að The Icelandic Film School, sem stendur einn eftir í kjölfar gjaldþrots Kvikmyndaskóla Íslands. Böðvar er beðinn að skýra frá því hvaða starfsemi fer fram í The Icelandic Film School og hvernig skólarnir tveir tengjast.
Segir hann að ætlunin hafi alltaf verið að Kvikmyndaskóli Íslands myndi reka erlenda deild og frá árinu 2004 hafi skólinn verið rekinn á tveimur kennitölum. Kvikmyndaskóli Íslands verið stofnaður 2003 en The Icelandic Film School hafi fengið kennitölu ári síðar.
Böðvar segir að skólarnir tveir hafi í raun alltaf verið sama stofnunin. Við þá hafi alltaf verið sama stjórn og sami rektor og að skólarnir séu að öllu leyti sami skólinn í sama húsnæði. Hins vegar hafi með þessum hætti verið haldið sérstaklega utan um fjárreiður erlendu nemendanna til að gæta þess að opinbert fjármagn færi eingöngu í íslenskumælandi deild.
Í The Icelandic Film School eru innheimt helmingi hærri skólagjöld en í Kvikmyndaskóla Íslands enda renni engin opinber framlög til skólans. Greiða nemendur 8.500 evrur á önn en annirnar eru fjórar. Jafngilda skólagjöld á hvern nemanda þá alls ríflega fimm milljónum króna ef miðað er við allt námið.
Böðvar Bjarki segir stöðuna óneitanlega vera mjög sérstaka.
„Ég er með 10 stúdenta í The Icelandic Fim school og ástæða þess að ég er tilbúinn að ræða við blaðamenn er að ég hef miklar áhyggjur af því sem er að gerast með Kvikmyndaskólann.
Það er verið að draga námið niður mjög hratt. Það er verið að segja upp fagstjórum og það er verið að segja upp rektor. Þetta virkar ekki þannig að það sé bara hægt að kaupa eitthvað nafn og síðan bara breyta öllu og halda að það sé það sama.
Það sem er hættulegt við þetta er að Kvikmyndaskóli Íslands er með mjög verðmætar alþjóðlegar viðurkenningar sem eru bara í stórhættu út af þessari vitleysu.“
Böðvar segir Icelandic Film School enn starfa í sama húsnæði en skólinn er með sérstakan leigusamning um ákveðinn hluta af húsinu við eigendur þess.
„Inni í The Icelandic Film School erum við að reyna að halda í einhvern vísi af gamla skólanum og sláum ekkert af regluverki þar þó við séum ekki mjög sterk eftir öll þessi læti.
Við erum að lenda í stórkostlegum vandræðum því The Icelandic Film School er ekki með skráningu í neinum kerfum neins staðar, sem gerir að verkum að ég er að missa útlendingana út. Það er eiginlega alveg sama hvar niður er borið, manni er gert erfitt fyrir,“ segir Böðvar Bjarki.
Nú er hann að opna fyrir viðræður við háskólaráðuneytið þar sem hann óskar þess að mál skólans verði afgreitt með einhverjum hætti.
„Það verður þá bara að sameina þetta aftur því Rafmennt er að fara að búa til eitthvað allt annað dæmi, það er bara alveg greinilegt,“ segir hann.
Böðvar segir ekki hægt að láta Kvikmyndaskólann einan bera ábyrgð á því slysi sem varð.
„Við viljum bara halda áfram að fá okkar samninga. Ég er búinn að vera að reyna að snúa umræðunni og fá meiri yfirvegun í hana.
Auðvitað hefði ég viljað reyna að kaupa þetta bú til baka. Það er náttúrulega óþolandi að menn séu að tapa þarna fé sem eiga ekkert að tapa fé og að á sama tíma liggi peningar inni á fjárlagaliðnum.“
Segir Böðvar Bjarki að um leið og ráðuneytið opni fyrir glufu um að það ætli sér að viðurkenna skólann og lausn verði fundin, séu aðstandendur skólans tilbúnir með áætlun.
„Við erum með viðurkenndan evrópskan kvikmyndaháskóla til að koma með okkur, sem að einhverju leyti getur tekið okkur í ábyrgð ef það er það sem ríkið vill.
Þá viljum við kalla til bakhjarla og fá fleiri að skólanum. Við viljum leggja fram tilboð sem hefur að geyma að einhverju leyti einhverjar nýjungar,“ segir Böðvar Bjarki.