Stóri plokkdagurinn var settur í áttunda sinn í morgun við endurvinnslustöð Sorpu í Jafnaseli í Breiðholti en um er að ræða langstærsta einstaka hreinsunarverkefni á Íslandi.
Björn Skúlason, eiginmaður Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, setti daginn í stað Höllu, sem er á heimleið frá útför Frans páfa í Róm.
Birni til halds og trausts voru þau Jón Karl Ólafsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, og Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, plokkari frá Eyrarbakka, en sveitarfélagið Árborg verðlaunaði hana í fyrra fyrir framlag sitt til fegrunar þess. Elín plokkar allan ársins hring og losar náttúruna við mikið magn af plasti og rusli.
Fyrsti Stóri plokkdagurinn var haldinn áríð 2018 en síðan hefur deginum vaxið ásmegin. Rótarýhreyfingin á Íslandi skipuleggur daginn í samvinnu við Landsvirkjun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Langflest sveitarfélög taka þátt í verkefninu og fjöldi fyrirtækja nýtir daginn og dagana í kring til að taka til hendinni sem og hverfa- og félagasamtök um allt land.
Plokkað var frá klukkan 10 til 12 í dag í Efra-Breiðholti og að plokkinu loknu buðu samtök gegn matarsóun öllum þátttakendum upp á svokallaða diskósúpu.
Margs konar plokkviðburði er að finna um allt land um helgina, sem hægt að kynna sér nánar á síðunni Plokk á Íslandi á Facebook.
Starfsfólk Sorpu mun taka vel á móti plokkurum og er öllum velkomið að skila afrakstri plokksins á næstu endurvinnslustöð.
Reykjavíkurborg tekur á morgun við ábendingum um hvert sækja megi plokkað rusl í síma 411 8440 og þá er þægilegt að senda ábendingar um slíkt í gegnum ábendingavef borgarinnar. Fleiri sveitarfélög bjóða upp á sambærilega þjónustu sem hægt er að kynna sér á vefjum þeirra eða samfélagsmiðlum.