Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, kannast ekki við að einstaklingar, sem bíði brottvísunar frá Íslandi, séu vistaðir í margar vikur við óviðunandi aðstæður í fangageymslum lögreglu. Hann segir kerfið sprungið og að það vanti rými.
Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem þessu var haldið fram.
Birgir segir rétt að einstaklingar, sem bíði brottvísunar frá Íslandi, séu vistaðir í fangageymslum lögreglu og tekur hann undir það að ekki sé um viðunandi stöðu að ræða enda fangageymslur lögreglu ekki hannaðar til þessa.
Segist hann telja að nú um stundir sé um fjóra einstaklinga að ræða, sem ekki er hægt að vista hjá Fangelsismálastofnun. Kannast hann ekki við að tugir einstaklinga hafi verið vistaðir með þessum hætti á hverjum tíma en það geti vel verið að þegar safnist saman að fjöldi þeirra geti náð einhverjum tugum.
„Það er heimilt á grundvelli útlendingalaga að úrskurða menn í gæsluvarðhald, sem ekki hafa landvistarleyfi og það er það sem er gert.
Í lögum um fullnustu refsinga er heimild til að vista gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslum lögreglu en ekki lengur en í fjóra sólarhringa, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Nú eru sérstakar aðstæður sem eru þær að fangelsin eru bara yfirfull,“ segir Birgir.
Hann kannast ekki við að fangar séu vistaðir við þessar aðstæður í margar vikur en segist kannast við að um sé að ræða einhverja daga, hugsanlega allt að eina viku.
„Þetta eru einstaklingar í gæsluvarðhaldi og þegar þeir eru vistaðir hjá lögreglu eru þeir á forræði viðkomandi lögreglustjóra. Ég hugsa að hann geti svarað þessu betur, vilji hann það.
Ég get að mörgu leyti tekið undir þessar áhyggjur en ég get ekki staðfest meðferðina á þessum föngum að öðru leyti.“
Birgir segir marga samverkandi þætti valda því að þessi staða sé uppi. Brotaþróun hafi breyst. Mikill fjöldi innflutningsmála hafa komið upp þar sem erlend burðardýr koma hingað til lands með fíkniefni og er mikil aukning á slíku.
Þá hafi bæði fleiri manndrápsmál komið upp og fleiri manndrápstilraunir. Þá segir hann að alvarlegri brot séu að koma til fullnustu.
„Kerfið er sprungið og það vantar rými, sem eru ekki hrist fram úr erminni. Það hefur verið vitað í nokkuð langan tíma og ég hugsa að okkur vanti um það bil 20 rými hér og nú þó það sé erfitt að segja til um það þar sem það eru svo margar breytur í þessu.“