Ökumaður var stöðvaður í austurborginni vegna of hraðs aksturs í gærkvöldi. Ók hann á 110 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60 km/klst.
Þetta kemur meðal annars fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum frá klukkan 17 í gær til 5 í dag.
Þar segir að fjórir hafi gist í fangageymslu í nótt og 54 mál hafi verið bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Þrír ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir við akstur við hefðbundið umferðareftirlit og handteknir vegna gruns um að vera undir áhrifum ávana- eða fíkniefna.