Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps í Austur-Húnavatnssýslu fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli sínu. Af því tilefni hafa verið haldnir nokkrir tónleikar í vetur, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu, en sérstök afmælisveisla var haldin í félagsheimilinu Húnaveri sumardaginn fyrsta, þar sem gestum var boðið til kaffisamsætis og tónleikahalds um leið. Húnaver hefur verið samastaður kórsins í áratugi og því þótti við hæfi að efna þar til afmælisveislunnar.
„Hundrað ára öldungurinn bauð í alvörukaffiboð, þetta var eins og risafermingarveisla. Kvenfélagið í hreppnum sá um kaffiveitingarnar og gerði það glæsilega. Við sungum nokkur lög og fólk spjallaði saman yfir kaffi og með því. Það var gaman að gera þetta sumardaginn fyrsta, í miklu blíðviðri,“ segir Höskuldur Birkir Erlingsson formaður karlakórsins við Morgunblaðið.
Höskuldur segir kórinn hafa ákveðið í fyrra að á afmælisárinu 2025 yrði æfð dagskrá sem yrði þverskurður þess sem hann hefði verið að syngja á undanförnum 100 árum.
„Þetta hafa verið klassísk kórlög í bland við það sem við höfum gert núna seinni árin við góðar undirtektir, að flytja ýmis lög með hljómsveit, meðal annars lög Geirmundar Valtýssonar og lögin sem Elly og Vilhjálmur gerðu vinsæl,“ segir Höskuldur enn fremur.
Kórinn hefur á afmælisárinu sungið á Blönduósi, Hvammstanga og í Miðgarði í Skagafirði og Borgarnesi. Síðan er stefnan tekin á tvenna eða þrenna tónleika í haust, að sögn Höskuldar. Stjórnandi kórsins er Eyþór Franzson Wechner og undirleikari Louise Price.
„Við erum afskaplega stoltir af því að hafa náð hundrað ára aldri, þegar félagsstarf á víða undir högg að sækja. Framtíðin er björt og margir ungir menn komnir í kórinn,“ segir Höskuldur.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.