Vegagerðin hefur fengið framkvæmdaleyfi vegna nýrrar akreinar á 400 metra kafla meðfram Kringlumýrarbraut til suðurs frá gatnamótum Háaleitisbrautar og að Miklubraut. Ekki verða gerðar breytingar á gatnamótunum sjálfum. Miðeyjan verður minnkuð og endurgerð, núverandi girðing fjarlægð og komið fyrir vegriði í miðeyju.
Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur var samþykkt að gefa út leyfi og skrifstofu stjórnsýslu og gæða falið að gefa það út.
Í svari Sigríðar Ingu Sigurðardóttur, sérfræðings á samskiptadeild Vegagerðarinnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að markmiðið með uppbyggingu forgangsakreinar á Kringlumýrarbraut er að gera strætisvögnum kleift að komast leiðar sinnar á þessum kafla, óháð annarri umferð.
Áætluð umferð á Kringlumýrarbraut á þessu svæði er um 30.000 ökutæki/sólarhring samanlagt í norður- og suðurátt. Eins og staðan er núna fer strætó ekki þarna um því umferðin er of hæg á annatímum og engar strætóstöðvar eru á þessum slóðum. Í dag aka vagnar upp Miklubraut, fram hjá Kringlu og svo vestur eftir Háaleitisbraut og beygja síðan norður Kringlumýrarbraut.
Þegar forgangsreinin verður tekin í gagnið mun ferðatími strætófarþega styttast um allt að 4-5 mínútur á þessari leið.
Í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa kemur fram að framkvæmdin er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 um stofnbrautir, skilgreindar meginleiðir og almenn markmið um vistvænar samgöngur.
Framkvæmdaleyfið er háð eftirfarandi skilyrðum: Taka skal tillit til þess að framkvæmdasvæðið er í miðju íbúðasvæði í grennd við blokkir, sitt hvorum megin við umferðarmikla stofnbraut. Því skal virða allar reglur og leiðbeiningar um vinnutíma, merkingar, hávaða og rask við íbúa sitt hvorum megin við stofnbrautina og nærliggjandi svæði þannig að framkvæmdin valdi eins lítilli truflun/raski og hægt er.
Einnig skal tryggja að vinnusvæði sé snyrtilegt vegna viðkvæmrar staðsetningar þess.
Setja þarf upp upplýsingaskilti við framkvæmdastað sem lýsir fyrirhugaðri framkvæmd á myndrænan hátt ásamt því að vera með upplýsingar um framkvæmdatíma og tengilið sem getur veitt nánari upplýsingar um framkvæmdina sjálfa.
Loks segir verkefnastjórinn að leitast skuli við að lágmarka neikvæð áhrif eins og unnt er. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að mengandi efni berist frá framkvæmdum, t.d. af völdum olíu og annarra efna sem geta losnað út í umhverfið meðan á framkvæmdum stendur.
Framkvæmdum skal lokið innan tilgreinds tíma og er minnt á að framkvæmdaleyfið fellur úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.
Verkið var boðið út 21. mars síðastliðinn og tilboð opnuð 8. apríl.
Alls bárust fimm tilboð. Lægsta boð átti D.Ing – verk ehf., Garðabæ, krónur 146.769.000. Var það 88,5% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á tæpar 166 milljónir. Næstlægsta borð átti Garðyrkjuþjónustan ehf., Reykjavík, rúmar 157 milljónir.
Sigríður Inga segir að ráðgert sé að ganga til samninga við verktaka á næstu dögum. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist um miðjan maí og þeim á að ljúka fyrir 15. ágúst. Lagt er upp með að framkvæmdir fari fram yfir sumartímann eða áður en umferð eykst aftur eftir sumarfrí.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.