Stóri plokkdagurinn er í dag og ýmiss konar viðburðir fóru fram víðs vegar um landið að því tilefni.
Björn Skúlason, eiginmaður Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, setti Stóra plokkdaginn formlega við endurvinnslustöð Sorpu í Jafnaseli í Breiðholti en plokkarar í öllum landshlutum létu ekki sitt eftir liggja og söfnuðu alls kyns rusli og drasli bæði í þétt- og dreifbýli.
Á Akureyri og Sauðárkróki fór hópur sjálfboðaliða frá Rótarýklúbbunum fyrir plokkurum.
Öflugur hópur mætti til verka í Kelduhverfi í Norðurþingi. Viðburðurinn var samvinnuverkefni Rótarskots í Norðaustri og Kvenfélags Keldhverfinga.
Allt rusl meðfram þjóðveginum í gegn um sveitina var hreinsað eftir því sem fram kemur í færslu Guðmundar Baldvins Guðmundssonar, fyrrverandi sveitarstjórnarmanns.
Á Tálknafirði var plokkað í góðu veðri. Mætingin var fín og boðið var upp á hressingu að plokki loknu.
Afrakstur Þingeyringa fyllti tvö stór fiskikör og gott betur en það. Spýtnabraki og járnadrasli verður komið á endurvinnslustöð og gömlum miðstöðvarofni fundinn betri staður.
Ása María Ásgeirsdóttir tíndi um 90 ruslapoka á Flúðum og nágrenni í fyrra. Þegar hún gaf sér tíma í miðju plokkverkefni í dag til að taka sjálfu var hún komin í um 40 poka.
Einn þekktasti plokkari landsins er á Eyrarbakka en Elín Birna Bjarnfinnsdóttir plokkar allan ársins hring og losar náttúruna við mikið magn af plasti og rusli.
Sveitungar hennar létu ekki sitt eftir liggja.