Það var líf í tuskunum á samfélagsmiðlum stjórnmálafólksins í vikunni sem nú er að líða undir lok. Páskastemningin var allsráðandi og veðursældin lék við unga sem aldna. Nú er sumarið sko komið, ekkert „jinx“ þar.
Samfélagsmiðlar íslensks stjórnmálafólks eru alltaf undir smásjá og því sem þar fer fram gert skil með reglubundnum og skemmtilegum hætti í Spursmálum. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði eða í rituðu máli hér að neðan.
Þá er elsta hátíð kristinna manna nýafstaðin og allir mannlegu hamstrarnir komnir í „back to basics“ gírinn. Beint á hamstrahjólið að hlaupa hring eftir hring því hjól kapítalismans mega aldrei hætta að snúast. Vonandi gátu allir notið páskahátíðarinnar jafnvel og pólitíkusarnir okkar, sem margir hverjir páskuðu yfir sig og notuðu fríið í að fara upp um fjöll og firnindi og gera alls konar páskalegt og skemmtilegt. Reyndar er þetta lið enn í páskafríi. Annað en við hamstrarnir. Næsti þingfundur er ekki fyrr en á morgun, mánudaginn 28. apríl.
Viðreisnarfólkið páskaði vel yfir sig ef marka má páskaeggja færslur þeirra og var páskastrákurinn Jón Gnarr þar í aðalhlutverki.
Svo kjömsuðu auðvitað allir páskaeggjum, þessum næstum því tveimur milljónum páskaeggjum sem framleidd voru og seldust upp, og deildu málsháttunum úr þeim á bæði „grammið“ og „feisið“. Sanna Magdalena fékk náttúrulega mest viðeigandi málshátt „ever“ líkt og sjá má á meðfylgjandi færslu. Honum hlýtur að hafa verið komið fyrir sérstaklega í eggið hennar, getur ekki annað verið. Allt á suðupunkti hjá sósíalistum, allir fátækir og allt í volli eins og vanalega.
En Snúlli Másson hann fékk ekki jafn „spot on“ málshátt og Sanna því hann er hvorki ókurteis né neitt sérlega lítill maður. Alla vega ekki í samanburði við Diljá Mist í það minnsta.
Spurning hvort sama niðurdrepandi gengisfelling málsháttarins eigi við hér? Ómögulegt að segja til um hvað Snúlli Más segir við því.
Sigmundur Davíð græjaði sér gúrme páskasteik af dýrari gerðinni; „beef tartare“ var það heillin. Vonandi er hann ekki sárþjáður af E.coli bakteríusýkingu. Það er mikilvægt að gegnsteikja matvæli úr nautgripum. Talað um við 71° „at least“. Það þarf nú einhver að fara kenna þessum gæja á eldavél - hann er orðinn fimmtugur sko.
Halla Hrund eða Fjalla-Halla, eins og hún stundum kölluð, fór upp á fjöll og firnindi með fjöllunni um páskana og er örugglega með massa harðsperrur eftir alla hreyfinguna.
Bryndís Haralds skellti sér til Vestmannaeyja um páskana. Þar gerðust undur og stórmerki því það sást til sólu nokkra daga í röð og Sandeyjahöfn í toppstandi. Mjólk og brauð og allt til í búðunum - algerlega „amazing“.
Jens Garðar kynjakvótakarl fór á skíði með spúsu sinni og þrátt fyrir að hann sé orðinn stirður og gamall karl þá gekk það klakklaust fyrir sig. Nú ókei! Hann er ekkert svo gamall þrátt fyrir allt gráa hárið. 1976, hann er fæddur 1976! Benjamin Button hvað?
Heyrðu já, svo var annar frídagur í vikunni ótengdur páskunum, sumardagurinn fyrsti. Svaka lúxus fyrir okkur hamstrana að fá einn frídag til viðbótar. Enda nennum við ekkert að vinna en Heiða Björg, borgarstjóri naut sumardagsins fyrsta betur en margir í blómlegri Reykjavíkurborg og sólskininu sæla. Þetta verður geggjað sumar. Siggi stormur segir það!
Inga Sæland þakkaði fyrir stuðninginn síðasta kraftaverka vetur eins og hún kallar það. Takk sömuleiðis Inga mín. Mikið kraftaverk að Nike skórnir hafi fundist! Þessar ömmur sko, þær geta allt.
Nýr-Dagur, sumar-dagur. Dagur B. nýtti sumardaginn fyrsta í að „tana“ á sér smettið. Hann kann þetta kallinn. Njóta ekki þjóta.
Eins og áður sagði gengur K-Frost í öll störf og sinnti hún vorverkum í kringum heimili sitt í gömlu góðu Nokia stígvélunum. Það er alveg sama í hverslags lufsum hún gengur hún er alltaf flottust.
Sumarið kom þegar sumarsjáflan datt í hús frá Pawel okkar allra besta Bartoszek og er þetta sú fyrsta af mörgum frá sjálfukónginum þetta sumarið. Þetta er bara rétt að byrja.
Ingibjörg Isaksen framsóknarmaddama flaug frá Akureyri til Kuala Lumpur í vikunni. Hún tók allt heila ferðalagið saman og skellti í eitt örvídjó til að sýna okkur hinum, sótsvörtum almúganum, hvað hún hefur það „nice“. Flugleggur eftir fluglegg - svaka stuð. Við samgleðjumst hér á klakanum enda alveg tíu gráður og lítur út fyrir að það sé alveg bráðum að koma bongó.
Nýjasti þáttur Spursmála er í heild sinni aðgengilegur í spilaranum hér að neðan: