Söfnun fyrir nýju húsnæði Kvennaathvarfsins hefur gengið vonum framar og veitt starfsfólki vonarneista um samtakamátt þjóðarinnar.
„Söfnunin hefur sýnt fram á samtakamátt sem er svo sterkur fyrir okkur sem erum að vinna í þessum bransa, og fyrir konurnar og börnin, að finna samfélagið sameinast á bak við okkur og finna að þetta er málefni sem allir eru tilbúnir að leggja lið, en við finnum líka að við þurfum að halda áfram, þetta er ekki bara komið,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Nýja húsnæðið er vel á veg komið og gengur samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir flutningum næsta sumar. „Við erum ótrúlega spenntar. Þetta er auðvitað svakalega stórt verkefni. Söfnunin með Á allra vörum gekk rosalega vel, en við höfum verið að safna fyrir þessu í mörg ár,“ segir Linda. Fjármagna verði lóðina og bygginguna en flutningarnir sjálfir krefjist einnig mikils fjármagns.
„Allt sem þarf inn í athvarfið er ekki tekið með í heildartölunni yfir byggingu hússins. Þannig að við erum ennþá á þessari vegferð að safna peningum og fá samfélagið með okkur í þetta verkefni.“
Þessi breyting kemur til með að efla starfsemi athvarfsins á alla vegu. Núverandi húsnæði er til að mynda ekki nægilega aðgengilegt fyrir konur með sérþarfir, en Linda segir aðgengi hafa verið tryggt í nýja húsinu. „Það er ótrúlega spennandi að geta gert betur þar, þó svo að við séum auðvitað að taka á móti öllum konum í dag.“
Þá segir hún nýju húsnæði fylgja fleiri barnarými og sérstakt rými fyrir unglinga. Alls konar skot verði um húsið þar sem konurnar geti verið út af fyrir sig en eldhús og stofa verði sameiginleg. Að sögn Lindu er mikilvægt fyrir konurnar að hafa hvata til að koma fram og umgangast fólk. „Við ákváðum að halda þeirri nálgun að reka athvarfið eins og heimili.“
Mun fleiri viðtalsrými verða í nýja húsinu, fyrir viðtalsþjónustu við þá sem ekki dvelja í athvarfinu. „Það er sú þjónusta sem er að vaxa mest hjá okkur,“ segir Linda, en þangað geta konur og aðstandendur leitað ráðgjafar.
„Konur og aðstandendur þeirra eru að koma af ýmsum ástæðum. Núna erum við bara með eitt slíkt rými þannig að það verður rosaleg breyting fyrir okkur að geta verið með fleiri viðtalsrými og stærra rými fyrir hópastarf – allt starfið mun ná að vaxa svo mikið meira.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.