Jarðskjálfti að stærð 3,5 mældist í Bárðarbungu skömmu eftir tólf á hádegi í dag. Skjálftar af þessari stærð eru algengir í Bárðarbungu, samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Síðasti skjálfti í Bárðarbungu var aðfaranótt laugardags og mældist sá 3,2.
Um venjulega virkni er að ræða samkvæmt Minney Sigurðardóttur, náttúruvársérfræðingi á náttúruvakt Veðurstofunnar.
„Það er bara mjög venjuleg virkni í Bárðarbungu að við séum að fá svona einn og einn þrist upp í fjarka. Við fengum nokkra 15. apríl og þá náðu einhverjir upp í fjóra komma eitthvað, þannig að þetta gerist alveg reglulega,“ segir Minney.
Hún segir einn og einn stóran skjálfta ekki setja ugg að sérfræðingum en ef margir stærri skjálftar komi á tiltölulega stuttum tíma og sérfræðingar fari að sjá að um hrinu sé að ræða fari þeir að rýna betur í svæðið. Með stórum skjálfta segir Minney að átt sé við skjálfta yfir 3 að stærð.
Segir hún viðbrögð við skjálftum metin hverju sinni.
„Erum við að sjá óróa eða ekki og hvað fylgir virkninni? Ef við fáum þrjá fjóra stóra skjálfta er staðan alltaf metin en það þarf ekki að kveikja á neinum viðvörunarbjöllum.“