Búast má við þokkalegu veðri víða á landinu í dag og næstu vikuna að sögn veðurfræðings. Hitastig gæti náð ellefu gráðum á Suðurlandi í dag.
Veðurfræðingur skrifar á vef Veðurstofunnar að útlit sé fyrir fremur hægan vind og skúraleiðingar á Suður- og Vesturlandi í dag, þurrt að mestu og víða bjartviðri norðan- og austanlands, en líkur á þokuslæðingi úti við sjóinn.
Á morgun nái líklega einhverjar skúrir norður yfir heiðar, en annars er spáð svipuðu veðri áfram. Hiti verður 6 til 12 stig yfir daginn.
Á þriðjudag má búast við vaxandi sunnan- og suðaustanátt, 8-15 m/s undir kvöld, hvassast vestast. Bjart verður austan til, annars skýjað en dálitlar skúrir. Fer að rigna sunnan- og vestanlands um kvöldið. Hiti verður 6 til 12 stig.
Á miðvikudag er útlit fyrir suðlæga eða breytilega átt 8-15 m/s og rigningu eða skúrir, einkum sunnan og vestan til. Hiti verður 5 til 10 stig. Norðvestlægari og dregur úr vætu um kvöldið.
Á fimmtudag má svo gera ráð fyrir vestlægri átt 8-15 m/s og dálítilli rigningu, en verður að mestu þurrt á Suðaustur- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.