Enn hefur ekki verið gert við skemmdir á grasflötinni við hið sögufræga hús Höfða í Borgartúni.
Rúta frá ferðaþjónustufyrirtækinu ME travel skildi þar eftir sig stór sár í flötinni í febrúar, þegar hún lenti í sjálfheldu og reyndi að snúa við.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, segir að beðið hafi verið eftir rétta árstímanum og veðurskilyrðunum sem og því að jarðvegur myndi þorna svo kjöraðstæður myndu skapast til að gera við skemmdirnar og ganga frá flötinni.
Borgin vinnur málið í samráði við tryggingafélag ferðaþjónustufyrirtækisins.
Ásmundur Einarsson, framkvæmdastjóri ME travel, segir í samtali við mbl.is að hann hafi sjálfur kosið að gert hefði verið við flötina strax. Hann segist ekki alveg skilja hvers vegna þurfi að bíða eftir betri aðstæðum.
Ásmundur segir enn fremur að tjónið sé minnst eftir rútuna. Það hafi fyrst og fremst orðið þegar rútan var dregin af flötinni. Kunnáttu hafi skort hjá þeim sem báru ábyrgð á þeirri aðgerð og hefðu eyðilagt grasflötina.
Hann ítrekar, það sem hann hefur áður sagt, að fyrirtækið bæti tjónið en það standi upp á borgina að gera við flötina.