„Mér líður í sjálfu sér engan veginn,“ segir fréttamaðurinn Bogi Ágústsson spurður um tilfinninguna sem fylgir því að hann muni lesa sinn síðasta fréttatíma í kvöld. Um mikil tímamót er að ræða því Bogi hefur verið á skjánum í nær 50 ár þar sem hann hefur flutt fréttir fyrir Íslendinga.
Spurður um athygli annarra fjölmiðla á þessum tímamótum þá segir Bogi að öðrum þræði kitli það hégómagirnina en á sama tíma átti hann sig ekki á því hvers vegna gert sé veður út af þessu.
„Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að halda upp á afmæli eða annað slíkt og það er í sjálfu sér vert að spyrja sig að því; hvers vegna er merkilegt þegar 73 ára gamall karl hættir í vinnunni.“ segir Bogi kíminn.
Hann hóf fréttalestur seint á áttunda áratug síðustu aldar og hefur því verið á skjám landsmanna í nær 50 ár.
Heldurðu að þú munir sakna þess að lesa fréttir?
„Alveg örugglega, þetta var stór partur af mínu lífi mjög lengi þó að það hafi breyst á undanförnum árum og ég hef trappað þetta niður. Ég ætla bara að vona að ég muni ekki horfa upp á aðra fréttaþuli og hugsa með sjálfum mér; ég hefði nú gert þetta betur,“ segir Bogi.
Bætir hann því við að hann vilji forðast það í lengstu lög að verða grjótfúlt gamalmenni sem telji sig vita betur.
„Á meðan maður hefur heilsu til þá held ég að það sé alveg hægt,“ segir Bogi.
Hann segir aðra fréttaþuli hafa leitað til hans í gegnum tíðina en sjálfur er hann lítið fyrir að troða sínum aðferðum upp á fólk.
„Það þarf hver og einn að finna sinn stíl, finna sjálfan sig og vera afslappaður. Það þarf að nálgast þetta af vandvirkni, heiðarleika og virðingu fyrir viðfangsefninu auk þess að undirbúa sig vel,“ segir Bogi.
Er einhver hápunktur sem stendur upp og kannski mistök líka?
„Hápunktarnir eru ansi margir þegar maður er búinn að vera 50 ár í blaðamennsku, bæði ánægjulegir en líka hlutir sem eru erfiðir. Ég get tiltekið að erfiðast þótti mér að fjalla um snjóflóðin fyrir vestan, bæði á Súðavík og Flateyri,“ segir Bogi.
Hvað mistökin varðar þá segir Bogi að hann hafi sloppið „nokkuð vel“ frá sínu.
„Ég held að þetta hafi sloppið blessunarlega hingað til. Það er kannski helst þegar ég var fréttamaður í Danmörku, þá talaði ég einhvern tímann um moskusnaut en þau heita sauðnaut á íslensku. Svona smávillur hafa farið í taugarnar á mér en sem betur fer hef ég sloppið við stórvægileg axarsköft,“ segir Bogi.
Taka ber fram að Bogi er ekki alfarið hættur í Efstaleiti og mun fara yfir erlend málefni á RÁS 1 á fimmtudagsmorgnum líkt og hann hefur gert undanfarin ár.