Kafbátaleitaræfing NATO hófst við Íslandsstrendur í dag og mun standa yfir næstu tvær vikur. Íslendingar eru gestgjafaþjóð æfingarinnar en Landhelgisgæslan telur mikilvægt að koma að æfingu sem þessari.
Æfingin nefnist Dynamic Mongoose og er árleg æfing Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á varðskipinu Freyju tóku þátt í dag.
Nokkur erlend skip og þyrlur taka þátt í æfingunni, þar á meðal hollenska skipið Tromp en einnig þýskur dísilknúinn kafbátur. Skipin komu hingað til lands í síðustu viku.
Æfingin hefst hér á Íslandi en færist hægt og bítandi í átt til Noregs er fram líður, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgigæslunnar, í samtali við mbl.is.
Í dag fékk þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að spreyta sig við að fylgja eftir kafbáti og síðan fékk sigmaður að síga úr þyrlunni niður að kafbátnum og aftur upp.
„Síðan fer fram viðamikill hluti æfingarinnar þar sem starfsmenn varnarmálasviðs gæslunnar starfa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli,“ segir Ásgeir.
Kafbátaleitaræfingin stendur til 9. maí. Landhelgisgæsla Íslands hefur annast skipulagningu æfingarinnar í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og flotastjórn Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi.