Listaháskóli Íslands veitti í dag styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen til Bryndísar Ástu Magnúsdóttur söngkonu við hátíðlega athöfn í Skriðu, sal LHÍ í Stakkahlíð. Styrkurinn er veittur árlega til framúrskarandi tónlistarnema við háskólann.
„Bryndís Ásta er einstaklega efnileg söngkona með mikla útgeislun og góða tengingu við tónlistina. Það er okkur sönn ánægja að veita henni styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen og styðja þannig við framhald hennar á glæsilegri tónlistarvegferð,“ segir Hanna Dóra Sturludóttir fagstjóri söngs hjá LHÍ.
Í tilkynningu segir að styrkurinn úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen sé mikilvæg viðurkenning á hæfileikum og elju ungs listamanns og mikilvægt framlag til áframhaldandi náms og þróunar í klassískum söng.
Bryndís Ásta hóf klassískt söngnám sitt fimmtán ára gömul undir handleiðslu Guðrúnar Jóhönnu Jónsdóttur, Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur og Þóru Björnsdóttur í Tónlistarskóla Garðabæjar og lauk þaðan framhaldsprófi. Hún hóf nám við Listaháskóla Íslands haustið 2022 en þar hefur hún notið leiðsagnar reyndra kennara á borð við Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristin Sigmundsson, Dísellu Lárusdóttur, Kolbein Ketilsson og Matthildi Önnu Gísladóttur. Að auki dvaldi hún síðastliðið haust í skiptinámi við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi.
„Í haust snýr Bryndís Ásta aftur til Konunglega tónlistarháskólans í Stokkhólmi þar sem hún mun hefja meistaranám í söng en þess má geta að aðeins tveir einstaklingar af stórum hópi umsækjenda fengu inngöngu að þessu sinni,“ segir Hanna Dóra. „Hún hefur vakið athygli fyrir öfluga sviðsframkomu og fjölbreytt verkefni, þar á meðal hlutverk í óperum eftir Mozart, Strauss og Caccini, frumflutning nýrrar óperu eftir Ea Wiimh og flutning á ljóðaflokkum Schumanns. Hún hefur einnig tekið þátt í tónlistarhátíðum innanlands og utan og stendur sjálf að bæjar- og listahátíðinni Rökkvan í Garðabæ. Nú í sumar syngur hún með Young Nordic Opera Choir á óperuhátíðum í Danmörku, Svíþjóð og á Óperudögum á Íslandi.“
Pétur Jónasson, deildarforseti Tónlistardeildar LHÍ, bætir við að nú standi yfir röð spennandi útskriftartónleika hjá nemendum Listaháskólans en að þessu sinni ljúka 40 nemendur námi við tónlistardeildina. „Ég hvet þau sem vilja hlusta á Bryndísi Ástu eða aðra frábæra söngvara og hljóðfæraleikara sem eru nú að ljúka námi að kíkja á heimasíðu Listaháskólans, lhi.is þar sem er að finna yfirlit yfir tónleikaröðina. Útskriftartónleikar eru ókeypis og tilvalið tækifæri til að hlýða á okkar efnilegasta tónlistarfólk stíga sín fyrstu skref.”