„Ekki örugg heima hjá okkur“

Svava og Sonja eru með böggum hildar yfir afdrifum kólumbísks …
Svava og Sonja eru með böggum hildar yfir afdrifum kólumbísks fóstursonar síns, Oscars Andres Florez Bocanegra, sem íslensk yfirvöld hafa nú vísað frá landinu öðru sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar maður fær svona svör, að það sé bara verið að vísa í lög­in og þeim finn­ist ekk­ert óeðli­legt við að senda barn úr landi verðum við nátt­úru­lega að bregðast við,ׅ“ seg­ir Sonja Magnús­dótt­ir í sam­tali við mbl.is, en þau Svavar Jó­hanns­son eig­inmaður henn­ar hafa hlotið þjóðar­at­hygli und­an­farn­ar vik­ur fyr­ir bar­áttu þeirra gegn því að fóst­ur­son­ur þeirra, Oscar And­ers Flor­ez Boca­negra, verði send­ur til Kól­umb­íu að und­ir­lagi ís­lenskra yf­ir­valda.

Fjöl­skyld­an í Hafnar­f­irði hef­ur nú sent Guðmundi Inga Krist­ins­syni, mennta- og barna­málaráðherra, bréf þar sem hún fer þess á leit að ráðherra láti rann­saka aðild flóttateym­is Hafn­ar­fjarðar að máli Oscars.

Dreng­ur­inn varð sautján ára um pásk­ana og ligg­ur öll kól­umb­íska fjöl­skyld­an hans und­ir líf­láts­hót­un­um kól­umb­ískra mis­ind­is­manna, eins og mbl.is hef­ur greint frá, ástand sem spratt af rekstri föður Oscars og lauk með því að hann lenti í van­skil­um með svo­kölluð vernd­ar­gjöld til staðarmafíunn­ar. Sú skuld fyrn­ist ekki þótt rekstri sé hætt og eru Oscar og báðir for­eldr­ar hans nú á dauðal­ista böl­menna þess­ara hvar sem til þeirra næst.

Eitt ör­ugg­asta land í heimi, en...

Við hverju býstu núna, þegar litið er til viðbragða stjórn­valda fram til þessa?

„Auðvitað von­ast ég eft­ir því að nú verði tek­in ein­hver ákvörðun í hans máli, í það minnsta að hon­um verði ekki brott­vísað á meðan verið er að skoða mál hans,“ svar­ar Sonja, málið hafi haft al­var­leg áhrif á and­lega heilsu allr­ar fjöl­skyld­unn­ar.

„Þegar maður upp­lif­ir sig ekki leng­ur ör­ugg­an heima hjá sér, hrekk­ur í kút þegar maður heyr­ir í bíl, þá er fokið í flest skjól,“ held­ur hún áfram. „Ísland er eitt ör­ugg­asta land í heimi og við upp­lif­um okk­ur ekki ör­ugg heima hjá okk­ur. Það er mjög al­var­legt.“

Búið sé að taka skól­ann af Oscari, hann þorir ekki leng­ur að mæta í Flens­borg­ar­skól­ann í Hafnar­f­irði þar sem lög­regla sótti hann inn á sal­erni í októ­ber í fyrra til þess að vísa hon­um úr landi. „Hann þráir að mennta sig,“ seg­ir fóst­ur­móðir hans með áhersluþunga. „Við vit­um að and­legt álag brýst út í lík­am­leg­um ein­kenn­um og hann er verkjaður og kval­inn. Þetta er engu barni bjóðandi,“ seg­ir hún enn frem­ur.

Biðin ein fram und­an

Í bréf­inu til ráðherra kem­ur fram að áður­nefnt flóttateymi hafi brotið lög og verk­ferla við meðferð máls­ins og látið und­ir höfuð leggj­ast að vernda Oscar þegar sannað hafi verið að dreng­ur­inn hafi verið beitt­ur and­legu og lík­am­legu of­beldi af hendi föður síns. Seg­ir svo:

Þegar Oscar var flutt­ur úr landi með of­beld­is­full­um föður í októ­ber sl. var opið barna­vernd­ar­mál til staðar vegna þess of­beld­is sem hann hafði mátt sæta af hálfu föður síns en flóttateymið gerði ekk­ert til að vernda Oscar. Neit­ar barna­vernd í þeim efn­um að taka ábyrgð a mis­tök­um sín­um. Oscar lýt­ur nú um­sjár barna­vernd­ar Suður­nesja­bæj­ar sem fylgd­ar­laust barn. Við för­um því fram á það við mennta- og barna­málaráðherra að hann beiti sér fyr­ir því að Oscar verði kyrr­sett­ur í ljósi mjög viðkvæmr­ar stöðu hans. Mál hans er enn til meðferðar hjá stjórn­völd­um sem ber laga­leg skylda til að rann­saka málið og kanna aðstæður hans per­sónu­lega og í heimalandi.

Aðspurð seg­ir Sonja nú biðina eina fram und­an hjá þeim Svavari, Oscari og öðrum börn­um þeirra hjóna. „Ég held að fólk geti ekki einu sinni ímyndað sér hvernig það er að vera í þess­um rúss­íbana all­an sól­ar­hring­inn. Maður vakn­ar með þung­an hjart­slátt og spyr sig hvað taki við í dag. „Þetta er bara mjög erfitt,“ seg­ir Sonja Magnús­dótt­ir að lok­um, jafn óviss nú og dag­ana ör­laga­ríku í októ­ber um hvað við taki í lífi Oscars og þeirra fjöl­skyld­unn­ar í erfiðu máli þar sem óviss­an nag­ar nótt sem nýt­an dag.

Hér má lesa er­indi fjöl­skyld­unn­ar til ráðherra í heild sinni:

[ávarp til Guðmund­ar Inga] 

Við und­ir­rituð Sonja Magnús­dótt­ir, Svavar Jó­hanns­son og fjöl­skylda ósk­um eft­ir því að Mennta- og barna­málaráðuneytið rann­saki aðild flóttateym­is Hafn­ar­fjarðar að barna­vernd­ar­máli Oscars And­ers Boca­negra Flor­ez fædd­ur 19. apríl 2008.

Flóttateymi Hafn­ar­fjarðar braut lög og verk­ferla við meðferð máls hans og lét í léttu rúmi liggja að vernda Oscar þegar sannað var að dreng­ur­inn var beitt­ur and­legu og lík­am­legu of­beldi af hendi föður síns. Þegar Oscar var flutt­ur úr landi með of­beld­is­full­um föður í októ­ber sl. var opið barna­vernd­ar­mál til staðar vegna þess of­beld­is sem hann hafði mátt sæta af hálfu föður síns en flóttateymið gerði ekk­ert til að vernda Oscar. Neit­ar barna­vernd í þeim efn­um að taka ábyrgð a mis­tök­um sín­um.

Oscar lýt­ur nú um­sjár barna­vernd­ar Suður­nesja­bæj­ar sem fylgd­ar­laust barn. Við för­um því fram á það við mennta- og barna­málaráðherra að hann beiti sér fyr­ir því að Oscar verði kyrr­sett­ur í ljósi mjög viðkvæmr­ar stöðu hans. Mál hans er enn til meðferðar hjá stjórn­völd­um sem ber laga­leg skylda til að rann­saka málið og kanna aðstæður hans per­sónu­lega og í heimalandi.

All­ir sér­fræðing­ar BUGL og sér­fræðilækn­ar af Land­spít­al­an­um gefa samróma álit í lækna­bréfi um að Oscari stafi bráð hætta af því að vera brott­vísað og það stefni hans geðheilsu í hættu. Einnig erum við með grein­ar­gerð fé­lags­ráðgjafa með sér­fræðiþekk­ingu í áfall­a­streitu, EMDR, sem hef­ur komið að hans máli síðustu 16 mánuði. Hún tel­ur hann með flókna áfalla­sögu en hér á Íslandi upp­lifi hann sig ör­ugg­an og frjáls­an og eigi hér fjöl­skyldu og vini. Ljóst er að hann á sér enga framtíð ef hann verður flutt­ur á brott.

Lág­marks­kröf­ur hvers barns eru að það upp­lifi sig ör­uggt inn­an veggja heim­il­is­ins og sé einnig ör­uggt inn­an veggja skól­ans sem það geng­ur í. Oscar upp­lif­ir sig ekki ör­ugg­an neins staðar eft­ir úr­sk­urðinn sem kveður á um það að taka ekki um­sókn hans til meðferðar og brott­vísa hon­um til Kól­umb­íu. Oscar þráir heitt að geta verið heima hjá sér ör­ugg­ur og geta farið í skól­ann sem hann elsk­ar.

Oscar er með flókna áfalla­sögu sem kall­ar á aðkomu sér­fræðinga. Hann er bú­inn að vera skelf­ingu lost­inn eft­ir að hafa fengið þenn­an úr­sk­urð og tel­ur að líf sitt endi fljót­lega. Hann sef­ur ekki, borðar ekki og líður hræðilega illa ásamt öðrum heim­il­is­meðlim­um þar á meðal börn­um okk­ar hjóna sem ótt­ast mjög um hann. Þau skilja ekki að það sé ekki verið að vernda barn sem beitt hef­ur verið miklu of­beldi. Hann sér enga framtíð verði hon­um vísað úr landi þegar hans eina von og ósk er að búa hjá okk­ur um ókomna tíð.

Þetta barn hef­ur verið beitt miklu of­beldi af ná­komn­um aðilum og fékk hug­rekki til að standa upp og segja frá en hef­ur ít­rekað verið beitt­ur of­beldi áfram í formi for­dóma og aðgerðarleys­is stofn­ana sem áttu að vernda hann.

Við erum til­bú­in í sam­tal hvenær sem ráðherra hef­ur tæki­færi til þess, en minn­um á að hvern dag, jafn­vel hverja klukku­stund er Oscar í al­gjörri óvissu um líf sitt og framtíð enda ligg­ur fyr­ir ákvörðun um brott­vís­un sem get­ur komið til fram­kvæmda hvenær sem er. Því skipt­ir máli að bregðast fljótt við þessu er­indi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert