Eva Rós Ólafsdóttir félagsráðgjafi mun taka við sem framkvæmdastjóri Bergsins Headspace af stofnanda þess og fyrrverandi framkvæmdastjóra, Sigurþóru Bergsdóttur.
Eva tekur formlega við störfum þann 1. júní en Sigurþóra hefur tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður Samfylkingarinnar, þar sem hún mun halda áfram að berjast með öflugum hætti fyrir bættri geðheilsu ungs fólks.
Eva Rós hefur starfað sem ráðgjafi og síðar sem fagstjóri hjá Berginu frá opnun þess árið 2019.
„Ég er afar þakklát stjórn Bergsins og fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir það traust sem mér er sýnt með þessari ráðningu. Ég hlakka til að halda áfram þeirri mikilvægu uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað og vinna að áframhaldandi þróun starfsins í góðu samstarfi við frábært fagfólk Bergsins,“ segir Eva Rós.
Eva Rós útskrifaðist sem félagsráðgjafi árið 2013 og starfaði fyrstu fimm árin hjá Fangelsismálastofnun. Árið 2018 tók hún við starfi verkefnastjóra móttöku flóttafólks í Mosfellsbæ og starfaði í kjölfarið við barnavernd og félagsþjónustu þar. Hún hóf störf hjá Berginu við opnun þess árið 2019.
Samhliða þessum störfum hefur Eva einnig kennt við Háskóla Íslands og hjá Endurmenntun HÍ. Hún hefur mikla reynslu af vinnu með ungu fólki og starfaði meðal annars í tíu ár í félagsmiðstöðvum Hafnarfjarðarbæjar.
Bergið Headspace hefur frá hausti 2019 boðið upp á ókeypis ráðgjöf og stuðning fyrir ungt fólk á aldrinum 12–25 ára, án skilyrða og tilvísana. Allir ráðgjafar Bergsins eru með fimm ára háskólamenntun, auk víðtækrar reynslu af vinnu með ungu fólki.
Þjónustan er lágþröskuldaúrræði og felur í sér snemmtæka íhlutun. Á hverri viku nýta á bilinu 100–120 ungmenni sér þjónustuna á eigin forsendum. Frá upphafi hafa um 2.800 ungmenni leitað til Bergsins.