This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Septemberkvöld á Hellisheiði eystri árið 2007 var staður og stund þegar Jón Gunnar Benjamínsson lamaðist og hefur upp frá því þurft að notast við hjólastól. Jón Gunnar er gestur Dagmála í dag og segir sögu sína. Hann er líkast til sá Íslendingur sem hefur komist undir læknishendur með flesta fjöláverka og lifað af. Tveir illa brotnir hryggjarliðir, gat á ósæð ásamt fjölmörgum öðrum áverkum blasti við Tómasi Guðbjartssyni lækni og hans teymi þegar Jón Gunnar kom til Reykjavíkur í sjúkraflugi.
Endurhæfingin var löng og ströng. Það var á stöðufundi á Grensásdeild Landspítalans, þar sem framtíðarhorfur og bataferli Jóns Gunnars var til umræðu, að setningin féll: „Þú munt aldrei ganga aftur.“ Hann er einlægur í viðtalinu og segir að þessa nótt hafi hann grátið. Þetta hafi hins vegar verið skiptið og þarna tókst hann á við sorgina og hin grimmu örlög.
Það ótrúlega er að nokkrum árum áður hafði bróðir hans, Bergur Þorri Benjamínsson, lamast í vinnuslysi. Tveir af fjórum bræðrum. Eins og gefur að skilja var þetta mikið álag á fjölskylduna og foreldra þeirra bræðra.
Jón Gunnar lét þessa stöðu ekki buga sig. Hann þurfti vissulega að sjá á bak mörgu en ákvað með sjálfum sér að hann ætlaði að ná styrk á nýjan leik og halda út í lífið.
Það var stór stund fyrir hann þegar hann á fjórhjóli komst að Eyjafjarðará og upplifði að hann gat kastað fyrir silung. „Það var ekki búið að taka þetta frá mér,“ segir hann og þetta var mikils virði. Jón Gunnar var heltekinn af veiðiþrá og stundaði allar veiðar hvort sem er með stöng eða byssu.
Nú hefur hann fundið græju, rafknúið létttorfæruhjól sem opnar ótal möguleika. Hann er farinn að flytja þetta tæki inn og ætlar að vitja gamalla veiðistaða í sumar, staða sem hann hefur ekki komist á í átján ár. Hann viðurkennir að það er fiðringur í honum.
Í þessu broti viðtalsins við Jón Gunnar fer hann yfir atburðinn og eftirmála. En í þættinum ræðir hann líka hvernig hann byggði sig upp og hefur náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.