Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gekk á Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi og spurði hann hvernig hann hyggðist bregðast við því að hópur leigubílstjóra hefði yfirtekið húsnæði Isavia á Keflavíkurflugvelli undir bænahald.
Daði svaraði því til að ráðuneytið hefði takmarkaða aðkomu að málinu nema í gegnum eigendastefnu ríkisins.
Isavia er opinbert hlutafélag og fellur undir fjármálaráðuneytið en umrætt húsnæði hefur verið nýtt undir kaffiaðstöðu fyrir leigubílstjóra. Í frétt RÚV um málið mátti sjá að húsið var nýtt undir bænahald múslíma.
Þá hafa leigubílstjórar kvartað undan því að þeir hafi ekki verið velkomnir í húsinu þar sem það hafi verið yfirtekið af öðrum bílstjórum, m.a. undir bænahald.
„Það keyrði þó um þverbak núna fyrir fáeinum dögum þegar hópur leigubílstjóra, nýtilkominna í þessu nýja kerfi, tók yfir húsnæði í eigu Isavia, húsnæði í eigu ríkisins fyrir vikið, og meinaði öðrum aðgang að þessu húsi,“ segir Sigmundur Davíð.
„Því liggur beinast við að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við þessu máli og mun hann reyna að færa stefnuna hjá Isavia til betri vegar,“ spurði Sigmundur Davíð.
Daði Már virtist snúa út úr orðum Sigmundar og sagði m.a.: „Það stendur ekki til að eigendastefna ríkisins innihaldi sérstakar klásúlur um notkun kaffiskúra.“
Bætti hann hins vegar við síðar í umræðunni að það væri stjórnar Isavia að taka ákvörðun í þessu máli sem og öðrum er snúa að rekstri félagsins.