Ítrekað hefur verið fjallað um það í bandarískum fjölmiðlum og greiningum að lækkun hagvaxtarspár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi til með að hafa töluverð áhrif á ferðalög í Bandaríkjunum. Töluverður fjöldi ferðamanna á Íslandi eru Bandaríkjamenn.
„Ég hef áhyggjur af þessum áhrifum, m.a. fyrir Suðurkjördæmi þar sem 80% ferðamanna fara í gegn og bara okkar hluta hér heilt yfir á Vesturlandi, Suðurlandi og auðvitað á landinu öllu,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er hún gerði málið að umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Beindi hún fyrirspurn sinni að Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Því spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann ekki þörf á því að skoða sérstaklega mögulegar og ólíkar sviðsmyndir fyrir ferðaþjónustuna? Í annan stað: Hvernig ætlum við að vera tilbúin? Áhrifin koma líklega ekki núna í sumar, flestir eru búnir að borga flug, heldur akkúrat ári síðar.“
Í svari sínu sagði Daði spurningar um þróun ferðaþjónustunnar á þessum tímum vera ráðuneytinu mjög ofarlega í huga.
Erfiðara sé að spá fyrir um hvernig sú atvinnugrein muni þróast vegna þess að hún sé einnig háð breytingum á hagvaxtarspá í Bandaríkjunum, sem hefur dregist verulega saman.
Einnig sé hún háð lækkun á gengi bandaríkjadals gagnvart bæði íslensku krónunni og öðrum gjaldmiðlum, sem muni gera það að verkum að ferðalög til Íslands verða dýrari, mælt í þeim gjaldmiðli.
Þessi áhrif segir hann vera til skoðunar en ráðuneytið sjái ekki alveg fyrir endann á þróuninni. Það sé fyllilega rétt að þörf sé á að greina vandlega hvernig áhrifin séu á komandi árum.