Herfugl (upupa epops) sást í Vík í Mýrdal um helgina en um sjaldséðan flækingsfugl er að ræða. Aðeins eru staðfestar 17 heimsóknir hans til Íslands frá því að skráning fugla hófst hér árið 1901, fyrir 124 árum.
Eins og meðfylgjandi mynd Sveins Jónssonar ber með sér er herfuglinn skrautlegur og mislitur. Sveinn náði myndinni sl. laugardag en þá voru margir fuglaáhugamenn mættir í bæinn, vopnaðir myndavélum, til að eltast við fuglinn. Einnig sást til hans í gær en ekki höfðu sést fleiri eintök, sagði Sveinn.
Í fuglabók Sigurðar Ægissonar kemur m.a. fram að herfuglinn haldi sig mest í sunnanverðri Evrópu og í Afríku. Farfugl sem leiti einna mest til Norður-Afríku og Suður-Asíu.