Isavia leggst ekki gegn bænahaldi í kaffiskúr leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli en þó þarf að tryggja að öllum líði eins og þeir séu velkomnir. Yfirmönnum Isavia var brugðið er fréttir bárust af yfirtöku skúrsins af hálfu erlendra leigubílstjóra og ætla að ráðfæra sig við menn sem eru „sérfróðir í fjölmenningarsamfélögum.“
Þetta segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, í samtali við Morgunblaðið.
RÚV greindi frá því á laugardaginn að hópur manna hefði tekið yfir kaffiskúr í eigu Isavia og notað hann í bænahald. Morgunblaðið ræddi við nokkra leigubílstjóra sem lýsa því að hópur erlendra leigubílstjóra hafi frá árinu 2023 tekið yfir kaffiskúrinn og notað hann í trúariðkun.
„Við gerum að sjálfsögðu ekki athugasemd við það að fólk iðki trú sína, það er gert um alla flugstöð og öðrum mannvirkjum Isavia. Þannig að það sem slíkt gerum við ekki athugasemdir við. Aftur á móti það sem okkur þykir ámælisvert í þessu er að það sé verið að meina fólki aðgang að húsnæði sem er fyrir alla og vera með einhvers konar framkomu sem er ónæði við aðra,“ segir Guðmundur.
Anna Kristín Ásmundsdóttir, leigubílstjóri hjá A-stöðinni, segir í samtali við Morgunblaðið að hún og vinkona hennar hafi keypt áhöld í skúrinn fyrir nokkrum árum sem voru notuð til að elda í skúrnum. Nú sé búið að stela „90%“ af öllu því sem þær eiga.
„Síðan í framhaldi af því, þegar þeir byrja þarna, þá vaða þeir þarna í að nota okkar eigur og við segjum: „Ókei, þeir eru bara bílstjórar eins og við og þeir mega það alveg.“ Nema svo byrja þeir að stela hlutunum okkar þarna. Það er til dæmis búið að stela grjónapotti vinkonu minnar, eggjasuðutækinu mínu, öllum diskunum, glösunum og hnífapörunum okkar,“ segir Anna.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.