Kennsla er hafin í námi því sem nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands hafa stundað. Kennslan er á vegum og í húsnæði Rafmenntar en að öðru leyti eru nemendur með sömu námsgögn, tæki og tól.
Þetta segir Þór Pálsson, framkvæmda- og skólastjóri Rafmenntar, í samtali við mbl.is.
„Kennsla hófst í morgun og nemendur eru að vinna í verkefnum sínum. Námið er með sama hætti og áður og kennararnir sem búið var að munstra á þá kennslu sem ekki var lokið og þá kennslu sem hófst eftir að þetta gekk allt yfir, þeir ljúka þessari önn með okkur.
Það eina sem hefur breyst er húsnæðið. Nemendur eru með sömu tölvur og búnað. Við höldum fullum gæðum í náminu og höldum okkur við það plan sem búið var að setja upp.
Tækniskólinn ætlaði ekki að halda því plani og það var þess vegna sem við gripum inn í.“
Þór segir Rafmennt í samtali við Háskólann á Bifröst áfram og vonast til að það samtali leiði í þá átt að orðið geti af samstarfi.
Þá segir hann Rafmennt einnig vera að ræða við starfsfólk háskólaráðuneytisins um framhaldið og vonandi verði fljótlega hægt að taka upp samtal við menntamálaráðuneytið einnig.
Ekkert er frágengið í því hvernig kvikmyndatækninámi, sem Rafmennt hefur boðið upp á í samstarfi við Studio Sýrland, verði háttað.
Þór segist fyrst vilja sjá hvaða endanlega lending verði með námið sem Rafmennt tók yfir frá Kvikmyndaskólanum og hvort menntamálaráðuneytið vilji semja við Rafmennt þar um. Í kjölfarið verði skoðað hvað verði um kvikmyndatækninám Rafmenntar og Sýrlands.
„Eins og staðan er núna eru þetta tvær greinar. Hvað verður þegar við fáum samning við ráðuneytið er bara eitthvað sem við tökum upp þá.“
Þór vísar öllu tali um verri gæði kvikmyndanámsins undir Rafmennt til föðurhúsanna. „Það eru bara viðbrögð beisks fyrrverandi eiganda.
Ég skil viðhorf hans og hann vill auðvitað tala þetta niður og segja að við séum að gera ómögulega hluti á allt öðrum forsendum en við tökum við náminu þar sem það var og höldum því bara áfram.
Við höfum alltaf viðurkennt að þetta nám væri flott og þess vegna förum við inn í þetta.“
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans og Anna Þórhallsdóttir gæðastjóri vinna áfram með Rafmennt og verða að sögn Þórs með honum í samtalinu við Háskólann á Bifröst.
Öllu starfsfólki var sagt upp í Kvikmyndaskólanum þegar skiptastjóri tók við búi hans og segir Þór þá uppsögn muni standa hjá einhverjum hluta hópsins en þeim starfsmönnum sem gegna lykilhlutverki við að ljúka önninni og hefja samtal við háskóla verði með Rafmennt áfram.
Aðspurður segir hann að þegar haldið verði áfram með námið þurfi hann fólk í störf fagstjóra, hvort sem það verði einhverjir fagstjóra Kvikmyndaskólans eða aðrir, það verði tíminn að leiða í ljós.