Ef gæsluvarðhalds er krafist yfir mönnum sem handteknir eru í kjölfar brottvísunar frá Íslandi og dómari úrskurðar þá í gæslu hefur lögregla ekki val um annað en að vista mennina í fangageymslum sínum.
Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Fjallað hefur verið um mögulegar óviðunandi aðstæður fanganna í kjölfar fullyrðinga frá Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun.
Ásgeir segir að best væri ef fangelsin á vegum fangelsismálastofnunar gætu vistað fangana en raunin sé einfaldlega önnur. Þá segir hann að ökklabönd myndu leysa sumt ef búið væri að taka þau almennt í notkun í þessum málum.
Hann segir fangahúsið á lögreglustöðinni á Hverfisgötu ekki hafa verið byggt sem gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar sé eingöngu hægt að vista fanga í einangrun. Þar sé enginn gangur sem hægt sé að opna að morgni og loka að kvöldi.
Eitt af því sem Afstaða gagnrýnir er að þegar umræddir fangar fái takmarkaða útivist séu þeir í sumum tilvikum handjárnaðir við svokallað „belti“.
Ásgeir segir að á Hverfisgötu sé ekkert útisvæði og lögregla ekki með nein úrræði til að geta farið með gæsluvarðhaldsfanga út.
„Ef farið er með þá út til að reykja t.d. þarf að fara með þá þar sem fangar eru færðir fyrir varðstjóra hérna niðri í portinu, þá væntanlega eru þeir í einhvers konar fjötrum já – pottþétt, bar til að tryggja að þeir stingi ekki af.
Þessar aðstæður eru ekki góðar, það er alveg á hreinu. Ef við værum með einhvern lokaðan garð í portinu eða einhvers staðar gætum við mögulega farið aðra leið en það er bara ekki staðan,“ segir Ásgeir.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sjö fangaklefa í fangahúsinu á Hverfisgötu undir þessa gæsluvarðhaldsfanga en nú eru þar fjórir vistaðir.