Lögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás þar sem nokkrir menn réðust á tvo sem voru á göngu. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu á lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti.
Þetta er meðal annars sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 55 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista sex í fangageymslu lögreglu.
Einn var handtekinn þar sem hann hafði brotið rúðu í miðborginni. Ekki reyndist nauðsynlegt að vista hann í fangaklefa og var gerð skýrsla á staðnum.
Tilkynnt var um hópslagsmál við bar en þar áttu menn að hafa notað hnífa í slagsmálum. Þegar lögreglan kom á staðinn var tilkynningin líklega ekki á rökum reist en einn aðili var þó kærður fyrir vopnalagabrot að því er fram kemur í skeyti lögreglunnar.
Þá fékk lögreglan tilkynningu um ofurölvi ferðamann. Ekki reyndist unnt að ná sambandi við ferðamanninn um hvar hann ætlaði að gista og fékk hann gistingu í fangageymslu.