Ríkisstjórnin vinnur áfram eftir þingmálaskrá og eins og staðan er í dag þá er ekki gert ráð fyrir því að fresta þurfi afgreiðslu neinna frumvarpa fyrir þinglok sem eru áætluð 17. júní.
Þetta segir Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar í samtali við Morgunblaðið.
Í dag kemur þingið saman aftur eftir páskafrí og eru um sex vikur eftir af þinginu. Spurður hvort það séu einhver mál á þingmálaskrá sem hann geri ráð fyrir að ekki verði hægt að klára segir Guðmundur svo ekki vera að svo stöddu.
„Við erum ennþá að fá mál inn í þingið þannig að við erum kannski ekki ennþá komin í þann fasa að fara að sigta þau út aftur. Við sjáum hvernig þingið gengur en það er mikið af stórum og mikilvægum málum þar, sem síðasta ríkisstjórn var líka búin að leggja til, þannig að við erum bjartsýn á að það sé áfram stuðningur við þau mál.“
Í Samráðsgátt má finna frumvarp um endurskoðun laga um leigubifreiðar frá 2023. Guðmundur gerir ráð fyrir því að það mál verði klárað í breiðri sátt á þessu vorþingi.
„Ég held að það sé nauðsynlegt að við förum í endurskoðun á þessum lögum og að umgjörðin sé skýrari, tryggi betur öryggi farþega og hæfi leigubílstjóra sem sinna þessum akstri. Sérstaklega þegar við erum ekki komin með tæknilausnir eins og Uber þar sem er hægt að vera með aukinn rekjanleika og fleira, að þá þurfum við að vera með skýrari lagaramma að mínu mati.“
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir flokkinn vera tilbúinn í „seinni hálfleik“ vorþingsins.
„Það kemur æ betur í ljós með hverjum degi að þessi ríkisstjórn þarf öfluga stjórnarandstöðu,“ segir Hildur.
Hún segir mikilvægt að öllum málum fylgi vönduð þingleg meðferð en að hennar mati eru mál frá ríkisstjórninni hroðvirknislega unnin, án rýni, gagna eða samráðs. „Til að mynda tvöföldun á veiðigjaldi sem á að skella á á einu bretti án þess að fyrir liggi mat á afleiðingum fyrir sjávarbyggðir og mikilvæga afleidda verðmætasköpun. Við munum passa upp á að það mál og öll önnur fái þá vönduðu þinglegu meðferð löggjafans sem þeim ber í þágu samfélagsins,“ segir Hildur.
Hún segir þó sum mál vera frá ríkisstjórninni sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að styðja.
„Mál varðandi orkumál og útlendingamál eru mörg ágæt og mikilvægt að þau klárist enda lágu þau tilbúin í ráðuneytunum frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í þeim málaflokkum.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.