Skall á „eins og hendi væri veifað“

Kristbjörg hefur dvalið í Bilbao á Spáni síðustu daga.
Kristbjörg hefur dvalið í Bilbao á Spáni síðustu daga. Ljósmynd/Kristbjörg Guðmundsdóttir

Íslend­ing­ur sem stadd­ur er í spænsku borg­inni Bil­bao seg­ir raf­magn komið aft­ur á eft­ir um tveggja tíma raf­magns­leysi. Hún seg­ir raf­magns­leysið hafa skollið á „eins og hendi væri veifað.“

Krist­björg Guðmunds­dótt­ir hef­ur dvalið í Bil­bao, sem er á norður­hluta Spán­ar, síðustu daga.

„All­ir gáttaðir“

Hún seg­ir að hún hafi verið á göngu um borg­ina í morg­un þegar öll ljós slokknuðu skyndi­lega. Í fyrstu hafi hún talið að um ein­hvers kon­ar verk­fall eða mót­mæli væri að ræða, þar sem hún hafði skömmu áður orðið vör við mót­mælaaðgerðir fyr­ir utan ráðhúsið í borg­inni.

Fljót­lega hafi þó komið annað í ljós, þegar erfitt reynd­ist að kom­ast inn í versl­an­ir.

Og þetta gerðist bara allt í einu?

„Þetta gerðist eins og hendi væri veifað og það voru all­ir gáttaðir.“

Frá Bilbao.
Frá Bil­bao. Ljós­mynd/​Krist­björg Guðmunds­dótt­ir

„Eins og all­ir væru svo­lítið villt­ir“

Greint hef­ur verið frá því að raf­magns­leysið hafi haft mik­il áhrif á um­ferð, meðal ann­ars í Madríd. Krist­björg seg­ir hins veg­ar að um­ferðin í Bil­bao hafi ekki verið mik­il og því hafi trufl­an­ir orðið minni.

„Það var svona eins og all­ir væru svo­lítið villt­ir, eins og þeir vissu ekki hvenær ætti að stoppa eða hvenær þeir kæm­ust af stað,“ seg­ir Krist­björg, og nefn­ir að sama hafi gilt um gang­andi veg­far­end­ur, enda hafi göngu­ljós­in einnig verið óvirk.

Einnig hafi ekk­ert síma­sam­band verið. Krist­björg seg­ir að hún hafi ætlað að nýta sér Google Maps til að halda ferð sinni áfram um borg­ina, en kortið hafi þá vísað henni „í kol­vit­lausa átt“.

„Það var eins og allt væri allt ein­hvern veg­inn sam­bands­laust.“

Flugið heim enn á áætl­un

Hún seg­ir nú raf­magn aft­ur komið á í borg­inni. Þegar blaðamaður náði af henni tali var hún á leið upp á flug­völl, á heim­leið til Íslands, og virðist raf­magns­leysið ekki hafa haft áhrif á flug henn­ar.

„Við vor­um að skoða þetta og vél­in á að fara á rétt­um tíma. Þannig að það virðist vera í lagi.“

Á mynd sem Krist­björg tók má þó sjá að ekki all­ir eru jafn heppn­ir, en á flug­vell­in­um í Bil­bao hef­ur flugi til Madríd­ar, Barcelona og Lissa­bon verið af­lýst.

Flug Kristbjargar til Íslands var enn á áætlun eftir rafmagnsleysið.
Flug Krist­bjarg­ar til Íslands var enn á áætl­un eft­ir raf­magns­leysið. Ljós­mynd/​Krist­björg Guðmunds­dótt­ir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert