Íslendingur sem staddur er í spænsku borginni Bilbao segir rafmagn komið aftur á eftir um tveggja tíma rafmagnsleysi. Hún segir rafmagnsleysið hafa skollið á „eins og hendi væri veifað.“
Kristbjörg Guðmundsdóttir hefur dvalið í Bilbao, sem er á norðurhluta Spánar, síðustu daga.
Hún segir að hún hafi verið á göngu um borgina í morgun þegar öll ljós slokknuðu skyndilega. Í fyrstu hafi hún talið að um einhvers konar verkfall eða mótmæli væri að ræða, þar sem hún hafði skömmu áður orðið vör við mótmælaaðgerðir fyrir utan ráðhúsið í borginni.
Fljótlega hafi þó komið annað í ljós, þegar erfitt reyndist að komast inn í verslanir.
Og þetta gerðist bara allt í einu?
„Þetta gerðist eins og hendi væri veifað og það voru allir gáttaðir.“
Greint hefur verið frá því að rafmagnsleysið hafi haft mikil áhrif á umferð, meðal annars í Madríd. Kristbjörg segir hins vegar að umferðin í Bilbao hafi ekki verið mikil og því hafi truflanir orðið minni.
„Það var svona eins og allir væru svolítið villtir, eins og þeir vissu ekki hvenær ætti að stoppa eða hvenær þeir kæmust af stað,“ segir Kristbjörg, og nefnir að sama hafi gilt um gangandi vegfarendur, enda hafi gönguljósin einnig verið óvirk.
Einnig hafi ekkert símasamband verið. Kristbjörg segir að hún hafi ætlað að nýta sér Google Maps til að halda ferð sinni áfram um borgina, en kortið hafi þá vísað henni „í kolvitlausa átt“.
„Það var eins og allt væri allt einhvern veginn sambandslaust.“
Hún segir nú rafmagn aftur komið á í borginni. Þegar blaðamaður náði af henni tali var hún á leið upp á flugvöll, á heimleið til Íslands, og virðist rafmagnsleysið ekki hafa haft áhrif á flug hennar.
„Við vorum að skoða þetta og vélin á að fara á réttum tíma. Þannig að það virðist vera í lagi.“
Á mynd sem Kristbjörg tók má þó sjá að ekki allir eru jafn heppnir, en á flugvellinum í Bilbao hefur flugi til Madrídar, Barcelona og Lissabon verið aflýst.