Flugfélagið Play flýgur á þrjá áfangastaði á Spáni og í Portúgal seinnipartinn í dag en víðtækt rafmagnsleysi er í löndunum tveimur sem víða hefur raskað flugvallar- og lestarsamgöngum.
Play flýgur til Madrid og Barcelona á Spáni og Lissabon í Portúgal en allar vélar eru á áætlun og munu að líkindum hefja sig til lofts á fjórða tímanum með hundruð Íslendinga.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að farþegar geti við aðstæður sem þessar alltaf átt von á einhverri röskun.
„Við biðjum farþega að fylgjast vel með og vera meðvitaðir um stöðuna.“