Meirihluti Íslendinga telur efnahagsstöðuna vera góða hér á landi í dag ef marka má niðurstöður könnunar Maskínu.
Þátttakendur voru spurðir hvort þeir telji efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða eða slæma. 63% aðspurðra telja hana vera góða en aðeins 37% slæma.
Um viðsnúning var að ræða frá sama tíma á síðasta ári þegar aðeins tæplega þriðjungur taldi efnahagsstöðuna góða en rúmir tveir þriðju slæma.
Íslendingar hafa ekki verið jafn jákvæðir gagnvart efnahagsstöðunni síðan Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt í nóvember 2021. Í apríl það ár tölu 64% aðspurða efnahagsstöðuna góða og 36% slæma.
Í gegnum vaxtahækkunarferlið og fram að könnun ársins fór hlutfall jákvæðra lækkandi; 53% árið 2022, 30% árið 2023 og eins og áður sagði 32% í fyrra.
Karlar eru jákvæðari en konur en 8,4% karla telja efnahagsstöðuna hér á landi mjög góða á móti aðeins 2,7% kvenna. 61,2% karla telja hana nokkuð góða en 51,9% kvenna. 7,6% kvenna telja efnahagsstöðuna mjög slæma en 6% karla og 37,8% kvenna telja hana frekar slæma á móti 24,4% karla.
Elsti og yngsti hópurinn er jákvæðastur en 7,3% 60 ára og eldri telja stöðuna mjög góða og 6,6% 18-29 ára.
Athygli vekur að yngsti hópurinn skiptist í fylkingar þar sem hann er einnig neikvæðastur en 11,1% 18-29 ára telur efnahagsstöðuna mjög slæma hér á landi og skammt á eftir í neikvæðninni fylgir næsti aldurshópur en 9,8% fólks á aldrinum 30-39 ára þykir staðan mjög slæm. Neikvæðni er hlutfallslega helmingi minni í öllum öðrum hópum.
Mesta ánægjan með stöðuna er á Vesturlandi og Vestfjörðum en 9,1% aðspurðra þar telja hana mjög góða. Minnst er ánægjan á Suðurlandi og Reykjanesi þar sem 11,1% telur stöðuna mjög slæma.
Hæsta tekjubilið telur stöðu efnahagsmála á Ísandi besta en 8,4% aðspurðra með 1.600 þúsund krónur og hærri heimilistekjur telja hana mjög góða og 67,8% nokkuð góða.
Lægsta tekjubilið telur stöðuna versta en 11,6% aðspurðra með lægri en 550 þúsund króna heimilistekjur telja hana mjög slæma og 41,9% frekar slæma.
Könnunin fór fram dagana 11. til 22. apríl 2025 og voru svarendur 1.616 talsins.