Viðsnúningur á viðhorfi til efnahagsmála

Viðhorf Íslendinga til efnahagsstöðunnar hér á landi hefur snúist við …
Viðhorf Íslendinga til efnahagsstöðunnar hér á landi hefur snúist við frá sama tíma á síðasta ári ef marka má niðurstöður könnunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri­hluti Íslend­inga tel­ur efna­hags­stöðuna vera góða hér á landi í dag ef marka má niður­stöður könn­un­ar Maskínu.

Þátt­tak­end­ur voru spurðir hvort þeir telji efna­hags­stöðuna á Íslandi í dag vera góða eða slæma. 63% aðspurðra telja hana vera góða en aðeins 37% slæma.

Um viðsnún­ing var að ræða frá sama tíma á síðasta ári þegar aðeins tæp­lega þriðjung­ur taldi efna­hags­stöðuna góða en rúm­ir tveir þriðju slæma.

Íslend­ing­ar hafa ekki verið jafn já­kvæðir gagn­vart efna­hags­stöðunni síðan Seðlabank­inn hóf vaxta­hækk­un­ar­ferli sitt í nóv­em­ber 2021. Í apríl það ár tölu 64% aðspurða efna­hags­stöðuna góða og 36% slæma.

Í gegn­um vaxta­hækk­un­ar­ferlið og fram að könn­un árs­ins fór hlut­fall já­kvæðra lækk­andi; 53% árið 2022, 30% árið 2023 og eins og áður sagði 32% í fyrra.

Karl­ar já­kvæðast­ir og ung­ir skipt­ast í fylk­ing­ar

Karl­ar eru já­kvæðari en kon­ur en 8,4% karla telja efna­hags­stöðuna hér á landi mjög góða á móti aðeins 2,7% kvenna. 61,2% karla telja hana nokkuð góða en 51,9% kvenna. 7,6% kvenna telja efna­hags­stöðuna mjög slæma en 6% karla og 37,8% kvenna telja hana frek­ar slæma á móti 24,4% karla.

Elsti og yngsti hóp­ur­inn er já­kvæðast­ur en 7,3% 60 ára og eldri telja stöðuna mjög góða og 6,6% 18-29 ára.

At­hygli vek­ur að yngsti hóp­ur­inn skipt­ist í fylk­ing­ar þar sem hann er einnig nei­kvæðast­ur en 11,1% 18-29 ára tel­ur efna­hags­stöðuna mjög slæma hér á landi og skammt á eft­ir í nei­kvæðninni fylg­ir næsti ald­urs­hóp­ur en 9,8% fólks á aldr­in­um 30-39 ára þykir staðan mjög slæm. Nei­kvæðni er hlut­falls­lega helm­ingi minni í öll­um öðrum hóp­um.

Mest ánægja vest­an­lands og í hæsta tekju­bil­inu

Mesta ánægj­an með stöðuna er á Vest­ur­landi og Vest­fjörðum en 9,1% aðspurðra þar telja hana mjög góða. Minnst er ánægj­an á Suður­landi og Reykja­nesi þar sem 11,1% tel­ur stöðuna mjög slæma.

Hæsta tekju­bilið tel­ur stöðu efna­hags­mála á Ísandi besta en 8,4% aðspurðra með 1.600 þúsund krón­ur og hærri heim­ilis­tekj­ur telja hana mjög góða og 67,8% nokkuð góða.

Lægsta tekju­bilið tel­ur stöðuna versta en 11,6% aðspurðra með lægri en 550 þúsund króna heim­ilis­tekj­ur telja hana mjög slæma og 41,9% frek­ar slæma.

Könn­un­in fór fram dag­ana 11. til 22. apríl 2025 og voru svar­end­ur 1.616 tals­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert