Björgólfur Thor Björgólfsson er sagður hafa fjármagnað njósnir um persónur og leikendur í málsókn gegn honum sem stærsta eiganda hins fallna Landsbanka árið 2008.
Hann er sagður hafa reynt að komast á snoðir um það hvort Róbert Wessman væri á bak við málsóknina.
Þetta kemur fram í fréttaþættinum Kveik sem birtist í kvöld.
Þar er m.a. vísað í upptökur sem leiða í ljós að Birgir Már Ragnarsson, náinn samstarfsmaður Björgólfs, var milliliður í samskiptum við njósnafyrirtækið PPPSF. Fyrirtækið elti, tók upp og gerði skýrslur um ferðir almennra borgara sem voru með í hópmálsókninni.
PPPSF var stofnað af fyrrverandi lögreglumönnum, þeim Jóni Óttari Ólafssyni afbrotafræðingi og Guðmundi Hauki Gunnarssyni lögmanni sem lést árið 2020. Störfuðu þeir hjá sérstökum saksóknara þegar fyrirtækið var stofnað. Þeir voru kærðir fyrir að stela gögnum og selja gögn frá embættinu til þrotabús út í bæ en rannsóknin var síðar látin niður falla.
Sjá má upptökur af þeim fylgjast með fyrrverandi hluthöfum Landsbankans á þriggja mánaða tímabili frá september til desember árið 2012. Sagt er frá því að fyrirtækið hafi notið liðsinnis lögreglumannsins Lúðvíks Kristinssonar, varðstjóra hjá umferðarlögreglunni. Hann var skráður fyrir á sjötta tug vinnustunda við njósnir á sama tíma og hann átti að vera við skyldustörf.
Beindust njósnirnar einna helst gegn Vilhjálmi Bjarnasyni, síðar þingmanni Sjálfstæðisflokks, Ólafi Kristinssyni lögmanni og Jóhannesi Bjarna Björnssyni hæstaréttarlögmanni.
Var tilgáta Björgólfs sögð sú að hópmálsóknarfélagið væri tengt Róberti Wessmann sem Björgólfur var sannfærður um að stæði að baki henni.
Settar voru upp faldar myndavélar og upptökutæki og þess freistað að ná myndum af Róberti með aðilum sem tengdust málsókninni.
Þá kemur fram að Róberti hafi verið fylgt eftir og allt vandlega skrásett sem hann tók sér fyrir hendur. Meðal annars kom fram að skráðar hafi verið læknaheimsóknir sem Róbert fór með börnin í.
Birgir Már Ragnarsson lögmaður, einn nánasti starfsmaður Björgólfs Thors, er sagður tengiliður Björgólfs við PPPT. Í upptöku sem birtist á skrifstofu Novator kemur fram að hann hafi gert samninginn um njósnirnar. Eru þeir Jón Óttar og Guðmundur Haukur sagðir hafa unnið um 850 tíma á þriggja mánaða tímabili frá september til desember 2012.