Byggðarráð Skagafjarðar hefur síðustu daga átt í samtölum við ráðherra í ríkisstjórn um möguleg kaup ríkisins á Háholti í þeim tilgangi að nýta húsnæðið undir meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda.
Þetta staðfestir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, í samtali við mbl.is. Samtöl standa enn yfir og segir Sigfús málið til skoðunar í ráðuneytinu. Ekki er því loku fyrir það skotið að Háholt verði notað sem meðferðarheimili á ný.
Háholt var selt um miðjan mars, með fyrirvara um fjármögnun, eftir að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, hafði slegið það út af borðinu að ríkið vildi nýta það undir meðferðarheimili. Var það sagt ekki henta, meðal annars vegna fjarlægðar frá höfuðborginni.
Kaupin gengu hins vegar ekki eftir og fór Háholt aftur á sölu rétt fyrir páska.
Nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn, fyrst málið er tekið aftur til skoðunar.
„Það er eitthvað verið að skoða málið þeirra megin,“ segir Sigfús.
„Við höfum átt samtöl við ráðherra í ríkisstjórninni og það eru samtöl í gangi,“ segir hann jafnframt.
Á meðan verður húsið þó áfram á sölu.
„Á sama tíma er húsið á sölu og það eru aðilar óviðkomandi ríkinu sem eru að spyrjast fyrir um húsið. Við höldum ferlinu áfram,“ segir Sigfús.
Háholt var byggt sem meðferðarheimili og það rekið sem slíkt í tuttugu ár, eða til ársins 2017. Árið 2014 var var farið í töluverðar endurbætur á húsnæðinu og síðustu árin var þar öryggisvistun fyrir börn. Síðustu árin hefur það hins vegar staðið autt að mestu.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur talað fyrir því að þar verð opnað meðferðarheimili á ný til að bregðast við því úrræðaleysi sem hefur verið viðvarandi í málefnum barna með fjölþættan vanda um nokkurt skeið.