Eiga í samtölum við ráðherra um Háholt

Í Háholti var rekið meðferðarheimili í 20 ár en það …
Í Háholti var rekið meðferðarheimili í 20 ár en það hefur staðið autt frá 2017. Skjáskot/Fasteignaveur mbl.is

Byggðarráð Skaga­fjarðar hef­ur síðustu daga átt í sam­töl­um við ráðherra í rík­is­stjórn um mögu­leg kaup rík­is­ins á Há­holti í þeim til­gangi að nýta hús­næðið und­ir meðferðar­heim­ili fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda. 

Þetta staðfest­ir Sig­fús Ingi Sig­fús­son, sveit­ar­stjóri í Skagaf­irði, í sam­tali við mbl.is. Sam­töl standa enn yfir og seg­ir Sig­fús málið til skoðunar í ráðuneyt­inu. Ekki er því loku fyr­ir það skotið að Há­holt verði notað sem meðferðar­heim­ili á ný.

Há­holt var selt um miðjan mars, með fyr­ir­vara um fjár­mögn­un, eft­ir að Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir, fyrr­ver­andi mennta- og barna­málaráðherra, hafði slegið það út af borðinu að ríkið vildi nýta það und­ir meðferðar­heim­ili. Var það sagt ekki henta, meðal ann­ars vegna fjar­lægðar frá höfuðborg­inni.

Kaup­in gengu hins veg­ar ekki eft­ir og fór Há­holt aft­ur á sölu rétt fyr­ir páska.

Aðrir hafa spurst fyr­ir um húsið

Nú virðist vera komið annað hljóð í strokk­inn, fyrst málið er tekið aft­ur til skoðunar.

„Það er eitt­hvað verið að skoða málið þeirra meg­in,“ seg­ir Sig­fús.

„Við höf­um átt sam­töl við ráðherra í rík­is­stjórn­inni og það eru sam­töl í gangi,“ seg­ir hann jafn­framt.

Á meðan verður húsið þó áfram á sölu.

„Á sama tíma er húsið á sölu og það eru aðilar óviðkom­andi rík­inu sem eru að spyrj­ast fyr­ir um húsið. Við höld­um ferl­inu áfram,“ seg­ir Sig­fús.

Byggt sem meðferðar­heim­ili

Há­holt var byggt sem meðferðar­heim­ili og það rekið sem slíkt í tutt­ugu ár, eða til árs­ins 2017. Árið 2014 var var farið í tölu­verðar end­ur­bæt­ur á hús­næðinu og síðustu árin var þar ör­yggis­vist­un fyr­ir börn. Síðustu árin hef­ur það hins veg­ar staðið autt að mestu.

Jón Gn­arr, þingmaður Viðreisn­ar, hef­ur talað fyr­ir því að þar verð opnað meðferðar­heim­ili á ný til að bregðast við því úrræðal­eysi sem hef­ur verið viðvar­andi í mál­efn­um barna með fjölþætt­an vanda um nokk­urt skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert