Varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið leystur af vinnuskyldu þar sem hann er grunaður um að hafa njósnað um fólk gegn greiðslu. Málið, sem á rætur að rekja til 2012, er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara.
Rúv greinir frá því að lögreglumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi í gær verið leystur undan vinnuskyldu eftir að lögreglustjóri fékk í hendurnar gögn sem sýndu hann sitja um heimili og vinnustaði fólks, elta það og safna um það persónuupplýsingum, á meðan hann var við skyldustörf.
Málið verður til umfjöllunar í Kveik í kvöld þar sem þetta er sagt vera hlutir af leynilegum njósnaaðgerðum árið 2012 sem lögreglumaðurinn þáði greiðslur fyrir, án vitundar yfirmanna sinna.
Fyrirtækið sem ráðið var til að stunda njósnirnar var að sögn Rúv stofnað af tveimur fyrrverandi lögreglumönnum.
Lögreglumaðurinn eigi að baki áratugaferil. Hann hafi starfað hjá sérsveit ríkislögreglustjóra og síðustu ár sem varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar. Hann hafi verið leystur undan vinnuskyldu í gær, eftir að blaðamenn Kveiks hafi leitað viðbragða frá yfirmönnum hans.